Aftur beinast ógnarverk að almennum borgurum

Hryðjuverk var framið í Svíþjóð í gær. Aðferðin var ömurlega kunnugleg. Maður ók flutningabíl inn í mannmergð á helstu verslunargötunni í miðborg Stokkhólms. Að sögn lögreglu létust fjórir í árásinni og a.m.k. tólf lágu særðir eftir. Þegar voru settir upp vegatálmar í borginni, almenningssamgöngur voru stöðvaðar og mælst til þess að almenningur væri ekki á ferð í miðbænum.

Árásarmannsins er nú leitað og er ekki vitað hver stóð að baki árásinni. Ekki er hins vegar hægt að kalla þennan verknað annað en hryðjuverk. Sænska lögreglan gengur út frá því við rannsókn sína og Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar, sagði allt benda til þess.

Árásin var fordæmd víða um heim í gær og fengu Svíar samúðarkveðjur.

Bílar eru hrottalegt vopn. Vitni lýstu því hvernig flutningabílnum var ekið á fullri ferð á allt sem fyrir varð. „Ég reyni að vona, en ég veit ekki lengur hvað mér á að finnast,“ sagði sjónarvottur í sænska sjónvarpinu. „Það virðist engin von eftir fyrir mannkyn.“

Það er kannski ekki að furða að fólki skuli fallast hendur eftir að hafa orðið vitni að svo fólskulegri árás. Áróðursmeistarar hryðjuverkasamtaka á borð við Ríki íslams hafa undanfarin ár skorað á fylgismenn sína að láta til skarar skríða með þessum hætti. Predikarar þeirra hafa í nafni íslams sérstaklega mælst til að þeir tækju bíla og notuðu þá til að fremja fjöldamorð. Þannig vonast þeir til að einfarar valdi handahófskenndum glundroða. Árásirnar sjálfar eru ekki skipulagðar í neinum höfuðstöðvum, engin boð fara manna á milli, vísbendingar eru af skornum skammti. Óhugnaðurinn skellur á fyrirvaralaust.

Það er erfitt fyrir lögreglu að bregðast við þessari ógn. Í löndum Evrópu eru hundruð og jafnvel þúsundir manna á listum yfir menn, sem aðhyllast málstað íslamista. Margir þeirra láta jafnvel lítið sem ekkert á sér kræla. Ógerningur er að fylgja þeim öllum eftir við hvert fótmál. Vísbendingar sem eftir á virðast æpandi geta hæglega drukknað í skvaldri og skarkala daglegra anna. Mun erfiðara er að verjast árásum einfara en skipulagðra hópa.

Á innan við ári hafa fjórar árásir verið gerðar með þessum hætti. Sú mannskæðasta var á Bastilludaginn í fyrra þegar 19 tonna vörubifreið var ekið í mannfjölda í Nice í Frakklandi. Þá létu 86 lífið og 434 særðust. Skömmu fyrir jól var flutningabíl, sem hafði verið rænt, ekið í mannþröng á jólamarkaði í Berlín. 12 manns létu lífið og 56 særðust. 8. janúar var flutningabíl ekið á hóp einkennisklæddra ísraelskra hermanna í Jerúsalem. Fjórir létu lífið og 15 særðust. 22. mars var bíl ekið á vegfarendur á Westminster-brúnni í London. Árásarmaðurinn yfirgaf bifreiðina og hélt að þinghúsinu þar sem hann stakk lögreglumann til bana. Alls létust fimm manns í árásinni og 50 særðust.

Ríki íslams hefur lýst yfir ábyrgð á þremur þessara árása, en tengsl samtakanna við árásarmennina eru ekki alltaf sterk.

Nú er hryllingurinn kominn til Svíþjóðar. Árásin í gær ber því vitni að ekkert land er undanskilið þegar hryðjuverk eru annars vegar og er óhjákvæmilegt að nefna að mikil umræða hefur verið í landinu undanfarnar vikur um afleiðingarnar af þeirri stefnu sænskra stjórnvalda að opna dyrnar fyrir flóttamönnum í kjölfarið á því að Donald Trump Bandaríkjaforseti talaði um árás í Svíþjóð, sem ekki hafði átt sér stað.

Í fréttum í gær kom fram að greiningardeild ríkislögreglustjóra hefði virkjað verklag vegna „hryðjuverkaárása í nágrannalöndum“. Það þýðir ekki að viðbúnaðarstig lögreglu hafi verið hækkað, en sérsveitarmönnum á vakt verður fjölgað um helgina og tilmælum hefur verið beint til lögreglunnar á Suðurnesjum að vera sérstaklega vakandi vegna flugs frá Svíþjóð. Allur er varinn góður, þótt ekki séu neinar vísbendingar um að hryðjuverkamenn hyggist láta hér til skarar skríða.

Enn er lítið sem ekkert vitað um tildrög árásarinnar í Svíþjóð. Tilgangurinn er að breiða út ótta og skelfingu meðal almennra borgara. Fyrir sextán dögum voru það Lundúnabúar, nú er röðin komin að íbúum Stokkhólms. Hryðjuverkamönnum og vígamönnum þeirra þarf að senda skýr skilaboð um að árásir þeirra muni ekki koma í veg fyrir að fólk lifi sínu hefðbundna lífi, að þær muni ekki veikja lýðræðið, heldur styrkja það.