Samgöngustofa metur sem svo að öryggismál hópferðabíla séu heilt yfir í góðu standi. Mikill innflutningur hafi verið á nýjum hópbifreiðum sem bendi til þess að flotinn sé að yngjast og megi ætla að nýjar rútur séu talsvert öruggari en þær eldri.

Samgöngustofa metur sem svo að öryggismál hópferðabíla séu heilt yfir í góðu standi. Mikill innflutningur hafi verið á nýjum hópbifreiðum sem bendi til þess að flotinn sé að yngjast og megi ætla að nýjar rútur séu talsvert öruggari en þær eldri.

„Slysatölur sýna að slösuðum í rútum fjölgar og veldur sú fjölgun vissulega áhyggjum en þó er fjölgunin nokkurn veginn í takti við fjölgun ferðamanna og þar með fjölgun rútufarþega,“ segir Gunnar Geir Gunnarsson, deildarstjóri öryggis- og fræðsludeildar Samgöngustofu.

Hann segir Samgöngustofu ekki hafa gögn um bílbeltanotkun í rútum en ljóst sé að hægt sé að auka hana til muna með því að tilkynna farþegum í upphafi ferðar um skyldu þeirra til að spenna beltin.

„Það er reynsla flestra sem hafa upplifað slíkt að mjög margir spenna á sig beltin við að heyra slík skilaboð. Lögum samkvæmt skulu farþegar fá upplýsingar um beltaskyldu frá ökumanni, leiðsögumanni eða með mynd- eða hljóðupptöku og er það því á ábyrgð rekstraraðila hópbifreiðanna og ökumanna þeirra að upplýsa farþega. Samgöngustofa vinnur stöðugt að því að auka beltanotkun almennt og eru rútur þar ekki undanskildar,“ segir Gunnar Geir.