Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í gær Jens Gunnarsson, fyrrverandi lögreglumann hjá fíkniefnadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, í 15 mánaða óskilorðsbundið fangelsi fyrir spillingu í starfi.

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í gær Jens Gunnarsson, fyrrverandi lögreglumann hjá fíkniefnadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, í 15 mánaða óskilorðsbundið fangelsi fyrir spillingu í starfi. Þá var Pétur Axel Pétursson dæmdur í níu mánaða fangelsi, m.a. fyrir að hafa boðið Jens gjafir fyrir aðstoð sína, en Pétur hefur áður hlotið dóm vegna fíkniefnamála.

Jens var ákærður fyrir brot gegn þagnarskyldu í starfi sínu sem lögreglumaður í deild R2, sem einnig var kölluð fíkniefnadeild, og Pétri Axel var gefin að sök hlutdeild í þeim brotum. Í málinu lá fyrir upptaka af samskiptum milli þeirra og endurrit af samtalinu, en Jens braut gegn þagnarskyldu sinni með því að upplýsa Pétur um að hann hefði ekki heyrt minnst á hann í deildinni í einn og hálfan til tvo mánuði og með því að upplýsa að tiltekinn maður væri skráður upplýsingagjafi og að hann væri í upplýsingasambandi við tiltekinn lögreglumann. Þá veitti Jens upplýsingar um innra skipulag lögreglunnar og nöfn lögreglumanna.

Jens var jafnframt ákærður og dæmdur fyrir stórfellda og ítrekaða vanrækslu og hirðuleysi í starfi sínu, með því að varðveita 1,18 grömm af amfetamíni og 10 millilítra af vefaukandi sterum og 20 millilítra af testósterón prípíónati í skrifborðsskúffu á vinnustað sínum. Lyfin hafði Jens fengið afhent vegna starfs síns en ekki gengið frá þeim í samræmi við reglur ríkislögreglustjóra. Hann einnig sakfelldur fyrir að hafa varðveitt tvær loftskammbyssur í skrifborðsskúffu í vinnunni. Vísaði Jens til þess að fleiri haldlagða muni hefði verið að finna í deildinni en hugsanlega hefðu þessi vopn verið notuð til kennslu eða sýninga.

Flugmiði og hálf milljón

Þriðji maðurinn, Gottskálk Þorsteinn Ágústsson, var sýknaður í málinu, en honum var gefið að sök að hafa lofað Jens tveimur flugmiðum með Wow air og hálfri milljón gegn afhendingu skýrslu Pricewaterhouse Coopers um Kaupþing sem bar yfirskriftina „Slitastjórn Kaupþings banka hf. „Project Staying Alive“ September 2010. Strictly confidential.“