Rannsókn Monique van Oosten sjúkraþjálfi útskrifaðist með meistarapróf í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands.
Rannsókn Monique van Oosten sjúkraþjálfi útskrifaðist með meistarapróf í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands. — Morgunblaðið/Eggert
Þorsteinn Friðrik Halldórsson tfh@mbl.is Með því að beita öndunaraðferð geta astmasjúklingar aukið lífsgæði sín svo um munar, bæði slegið á einkenni eins og mæði og dregið úr lyfjanotkun um 85%.

Þorsteinn Friðrik Halldórsson

tfh@mbl.is

Með því að beita öndunaraðferð geta astmasjúklingar aukið lífsgæði sín svo um munar, bæði slegið á einkenni eins og mæði og dregið úr lyfjanotkun um 85%. Þetta eru niðurstöður úr rannsókn Monique van Oosten fyrir meistarapróf í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands undir leiðsögn Mörtu Guðjónsdóttur, lektors við læknadeildina.

„Rannsóknin er um hvíldaröndun hjá astmasjúklingum og lífeðlisfræðileg áhrif öndunaraðferðar á hana og stjórn astmasjúkdómsins. Öndun er mismikil hjá misstórum einstaklingum, því hún er háð efnaskiptum. Stór karlmaður er með meiri efnaskipti en lítil kona, og hann andar því meira. Þessi öndunaraðferð sker sig úr að því leyti að hún kennir fólki að anda miðað við efnaskiptin, og í samræmi við hvað það er að gera. Niðurstaðan er að þegar fólk náði að koma jafnvægi þar á milli jókst stjórnin, og einkennin og lyfjanotkun minnkaði,“ segir Monique. Rannsóknin stóð yfir í fimm ár og voru alls 42 þátttakendur, 22 astmasjúklingar og 20 í heilbrigðum samanburðahópi. Astmasjúklingarnir voru mældir þrisvar sinnum með sex mánaða millibili. Öndunaraðferðin, svokölluð Buteyko-aðferð, var kennd eftir fyrstu sex mánuðina, en í grófum dráttum felur hún í sér að hægja kerfisbundið á öndun.

Margvíslegur ávinningur

Hálfu ári eftir að hafa notað aðferðina var astmahópurinn mældur aftur og kom þá í ljós að öndunaraðferðin hefði mikinn ábata í för með sér, bæði fyrir sjúklinga og í víðari skilningi. „Við astma eru oft notuð bæði stuttvirkandi og langvirkandi berkjuvíkkandi púst og sterapúst. Í rannsókn okkar minnkaði notkun á stuttverkandi pústum um 85% með þessari aðferð og notkun langvirkandi og sterapústa minnkaði um 50%. Þannig að það er talsverður ávinningur bæði fyrir lífsgæði fólks og frá hagfræðilegu sjónarhorni,“ segir Monique.

Áhrif á lífsgæði fólust í því að einkenni eins og mæði minnkuðu marktækt eftir að hafa notað öndunaraðferðina. „Þetta var mælt með spurningalista og viljastýrðum öndunarstoppum, og mæðin var metin út frá því. Það kom í ljós að fólk með astma andaði ekki endilega meira í hvíld heldur voru öndunarstöðvar þess næmari fyrir áreiti. Ef það reynir á það, andlega eða líkamlega, fer það að anda meira en fólk sem er ekki með astma. Næmni öndunarstöðva minnkaði eftir aðferðina,“ segir Monique.

Astmi vaxandi vandamál

Astmi er algengasti langvinni lungnasjúkdómurinn hjá börnum og árið 2012 var áætlað að um 10% barna á Íslandi hefðu greinst með astma. „Þetta er fyrsta rannsóknin sem kemur með lífeðlisfræðilegar útskýringar á áhrifum þessarar öndunaraðferðar. Astmi er vaxandi vandamál í heiminum og það er áhyggjuefni að þrátt fyrir betri og meiri lyf og greiningu hefur bæði alvarleiki og dánartíðni sjúkdómsins aukist á síðastliðnum tveimur áratugum. Þörf er á verulegum breytingum á astmameðferðum, annars fer dánartíðni vaxandi næstu 10 ár samkvæmt Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni,“ segir Monique.