Ráðgjafinn Ella Björns.
Ráðgjafinn Ella Björns.
Elín María Björnsdóttir ráðgjafi á 40 ára afmæli í dag. Hún er komin aftur heim til Íslands eftir að hafa verið í námi og starfað erlendis undanfarin misseri.

Elín María Björnsdóttir ráðgjafi á 40 ára afmæli í dag. Hún er komin aftur heim til Íslands eftir að hafa verið í námi og starfað erlendis undanfarin misseri.

„Ég seldi fyrirtækið mitt, Eggið, og fór fyrst í Opna háskólann í Reykjavík og síðan í nám í Svíþjóð. Þar var ég ráðin til ráðgjafarfyrirtækisins FranklinCovey og varð síðan framkvæmdastjóri FranklinCovey í Evrópu og Mið-Austurlöndum.

Núna er ég alþjóðlegur ráðgjafi hjá þeim en vinn einnig sjálfstætt. Ég er bæði í ráðgjöf og held fyrirlestra og tæpi á mannlegri hegðun og persónulegum þroska og vexti. Svo er ég mikið í stefnumótunarvinnu og verkefnastjórnun. Ég vinn við að þróa leiðtogahæfni bæði á fyrirtækjamarkaði og svo í menntageiranum en þar hef ég mikið verið.“

Sem dæmi um alþjóðleg ráðgjafarstörf þá hélt Elín fyrirlestur í Rúmeníu á ráðstefnu sem hét „The Woman“ um mikilvægi samstarfs menntageirans og atvinnulífsins í mars sl. og svo hélt hún annan fyrirlestur í Dubai á opnun stærstu menntaráðstefnu Sameinuðu arabísku furstadæmanna, GESS Conference, um hvernig megi innleiða betur menntastefnu þeirra fyrir árið 2021 og ná þeim markmiðum sem þeir stefna að. Í gær var hún síðan með fyrirlestra á Landspítalanum hér heima og undanfarið hefur hún unnið með bæði lögreglunni, sveitarfélögum og fjölda fyrirtækja hér á landi.

„Ég er heimakær flökkukind, er mikil fjölskyldukona, finnst gaman að hjálpa fólkinu mínu, var t.d. að aðstoða dóttur mína við að halda góðgerðartónleika,“ segir Elín um áhugamál sín en hún er í sambúð og á samtals fimm börn með sambýlismanni sínum. „Heimilið er eitt það mikilvægasta en svo finnst mér mjög gaman að ferðast og kynnast nýjum menningarheimum og mér finnst það forréttindi að hafa fengið tækifæri til þess.

Í dag ætla ég að vera með nánustu fjölskyldu, en svo á ég ótrúlegt ríkidæmi vinkvenna og þegar þær fréttu að ég ætlaði ekki að halda stórt upp á afmælið voru þær mættar til mín á miðvikudagskvöld í samráði við manninn minn og elduðu fyrir mig. Ég var algjörlega grunlaus og þetta var afskaplega gaman.“

Leiðrétting

Elín María var ekki eigandi verslunarinnar Eggið heldur var hún rekstrarstjóri þess, Húsasmiðjan átti Eggið. Enn fremur hefur Elín aldrei verið framkvæmdastjóri FranklinCovey í Evrópu og Mið-Austurlöndum. Árið 2015 var hún hins vegar svæðisstjóri á sviði menntageirans (Regional director Education), sem er eitt af 7 lausnarsviðum FranklinCovey.