Arfur Gullpeningurinn kemur í útskorinni viðaröskju og fylgir honum skjal.
Arfur Gullpeningurinn kemur í útskorinni viðaröskju og fylgir honum skjal. — Ljósmynd/Bruun Rasmussen
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kristján H. Johannessen khj@mbl.

Kristján H. Johannessen

khj@mbl.is

„Þetta eru stórmerkilegir hlutir sem þarna verða boðnir upp, en fleira þessu líkt mun vafalaust koma fram á næstunni því barnabörn þessa fólks eru að losa sig við muni sem þau tengja ekki við,“ segir Magni Magnússon safnari í samtali við Morgunblaðið og vísar til þess að danska uppboðshúsið Bruun Rasmussen hefur nú til sölu sjaldgæfa íslenska mynt.

Er um að ræða gullpening sem gefinn var alþingismönnum og öðrum fyrirmennum á alþingishátíðinni á Þingvöllum árið 1930. Myntin kemur í fallegri viðaröskju sem listamaðurinn Ríkarður Jónsson skar út og fylgir henni skjal sem undirritað er af Kristjáni X., konungi Íslands og Danmerkur á þeim tíma.

Á skjalinu, sem dagsett er 26. júní 1930, kemur einnig fram nafn þess sem heiðursmerkið fékk, en það er Björn Kristjánsson (1858-1939), fyrrverandi bankastjóri og ráðherra.

Heiðursmerkið verður boðið upp 9. maí næstkomandi og er það metið á um 160.000 krónur, en Magni segir það varlega áætlað og að það gæti selst á um 300.000 krónur. „Þetta fer mikið hærra,“ segir hann.

Aðspurður segir hann flesta þá peninga sem gefnir voru á alþingishátíðinni hafa glatast. „Mikið af þessum gullpeningum voru bræddir,“ segir Magni, en Seðlabanki Íslands varðveitir einn í safni sínu.