Flutningatölur Páskar hafa áhrif á fjöldann hjá Flugfélagi Íslands.
Flutningatölur Páskar hafa áhrif á fjöldann hjá Flugfélagi Íslands. — Morgunblaðið/Júlíus
Í síðastliðnum mánuði flugu tæplega 252 þúsund farþegar með vélum Icelandair en þeir voru ríflega 220 þúsund í sama mánuði í fyrra. Fjölgaði þeim því milli tímabilanna um 14%.

Í síðastliðnum mánuði flugu tæplega 252 þúsund farþegar með vélum Icelandair en þeir voru ríflega 220 þúsund í sama mánuði í fyrra. Fjölgaði þeim því milli tímabilanna um 14%. Í Mola sem Íslandsbanki sendi viðskiptavinum sínum er bent á að nokkuð bjartara sé yfir tölunum sem félagið birtir nú en í febrúar, þegar sætanýting reyndist mun dræmari en í sama mánuði 2016.

Framboðnum sætiskílómetrum fjölgaði um 19% og veldur það því að sætanýting félagsins fellur úr 84,1% í 82,4%, eins og fram koma í flutningatölum sem Icelandair Group sendi til Kauphallar í fyrradag.

Bendir Íslandsbanki á að nýtingarhlutfallið hjá félaginu í mars síðastliðnum sé svipað og í sama mánuði fyrir tveimur árum en taka verður tillit til að framboðið nú er miklu meira en þá. Framboðnar gistinætur á hótelum Icelandair voru tæplega 28 þúsund talsins í mars og fjölgaði þeim um 14% frá árinu á undan. Þá fjölgaði seldum gistinóttum mikið eða um 21% og reyndust þær ríflega 23.900. Þrátt fyrir stóraukið framboð fór nýtingarhlutfallið úr 81,2% í mars í fyrra í 86% nú.

Sætanýting hjá Flugfélagi Íslands lækkaði frá fyrra ári og reynist 62,8%, en hún var 69,3% í mars í fyrra. Segir Íslandsbanki að það kunni helst að skýrast af því að páska bar upp í mars í fyrra en þeir eru í apríl í ár. Ferðaglaðir Íslendingar sem hugsa sér til hreyfings innanlands yfir hátíðina eru því líklegir til að hækka nýtingarhlutfallið í þessum mánuði.

Einnig virðist töluverð aukning í fraktflutningum hjá samstæðunni. Þannig fjölgaði seldum tonnkílómetrum um 9% frá fyrra ári.