Árás í Stokkhólmi Vöruflutningabíllinn sem árásarmaðurinn notaði var fluttur burtu af vettvangi í gærkvöldi. Fjórir eru látnir og 15 særðir.
Árás í Stokkhólmi Vöruflutningabíllinn sem árásarmaðurinn notaði var fluttur burtu af vettvangi í gærkvöldi. Fjórir eru látnir og 15 særðir. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Stefán Gunnar Sveinsson Ingveldur Geirsdóttir Fjórir eru látnir og um fimmtán til viðbótar særðir, þar af níu alvarlega eftir að flutningabíl var vísvitandi ekið inn í hóp fólks á Drottningargötunni, helstu verslunargötu Stokkhólms, um eittleytið í gær...

Stefán Gunnar Sveinsson

Ingveldur Geirsdóttir

Fjórir eru látnir og um fimmtán til viðbótar særðir, þar af níu alvarlega eftir að flutningabíl var vísvitandi ekið inn í hóp fólks á Drottningargötunni, helstu verslunargötu Stokkhólms, um eittleytið í gær að íslenskum tíma. Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar, sagði að ráðist hefði verið á Svíþjóð og að allt benti til þess að um hryðjuverk hefði verið að ræða.

Talsmaður bjórframleiðandans Spendrups sagði að flutningabíl á vegum fyrirtækisins hefði verið stolið á meðan ökumaður hans var að afgreiða vörur til veitingastaðar í nágrenninu. Ökumaðurinn reyndi að stöðva árásarmanninn án árangurs.

Þaðan var bílnum ekið niður götuna á ofsahraða, þar til hann lenti á stórversluninni Åhlens, með þeim afleiðingum að nokkrir létust og fjöldi slasaðist. Sjónarvottar í búðinni lýstu því svo að þeir hefðu heyrt háan hvell, sem minnti á sprengingu, og reykur hefði byrjað að streyma inn frá aðalinngangi búðarinnar. Öryggisverðir verslunarinnar hófust þá þegar handa við að koma viðskiptavinum og starfsfólki hennar á öruggan stað.

Skömmu síðar bárust fregnir af því að skothvellir hefðu heyrst við Fridhemsplan en það hefur ekki verið staðfest af lögreglu.

Miðborginni lokað

Lögregla og aðrir viðbragðsaðilar brugðust hratt við og hvatti lögreglan fólk til þess að halda heim til sín. Varaði hún fólk við því að fara um miðborg Stokkhólms. Að auki var lestarkerfi borgarinnar lokað, en árásin átti sér stað nærri T-Centralen, sem er nokkurs konar miðpunktur þess. Áttu margir í miðborginni erfitt með að komast heim til sín eftir vinnu, samkvæmt frásögn sænskra fréttamiðla.

Í fyrstu fregnum var einn maður sagður í haldi lögreglunnar eftir verknaðinn en lögreglan bar þær fréttir fljótlega til baka. Um kvöldmatarleytið að sænskum tíma bárust hins vegar fregnir um að tveir hefðu verið færðir til yfirheyrslu en lögreglan tók sérstaklega fram að þeir væru ekki grunaðir um verknaðinn. Lýsti hún hins vegar eftir karlmanni í hettupeysu og grænum jakka og birti myndir af honum. Maður, sem svipar mjög til hans, var síðan handtekinn í gærkvöldi í verslun í Märsta, einu úthverfa Stokkhólms. Sagðist hann vera sekur um árásina.

„Árás á okkur öll“

Stjórnmálamenn í Evrópu og víðar lýstu yfir samstöðu sinni með stjórnvöldum og almenningi í Svíþjóð. Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, sagði að árásin hefði verið árás á okkur öll. Angela Merkel Þýskalandskanslari og Francois Hollande Frakklandsforseti lýstu sömuleiðis yfir hryllingi sínum vegna árásarinnar.

António Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, fordæmdi árásina síðar um daginn og vonaðist eftir því að hinir seku yrðu dregnir til ábyrgðar sem fyrst.