Sorg Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar, þerrar tárin á vettvangi árásarinnar í Stokkhólmi í gærkvöldi, ásamt aðstoðarmönnum og lífvörðum.
Sorg Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar, þerrar tárin á vettvangi árásarinnar í Stokkhólmi í gærkvöldi, ásamt aðstoðarmönnum og lífvörðum. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Anna Sigríður Einarsdóttir Ingveldur Geirsdóttir Stefán Gunnar Sveinsson Fjórir voru látnir í gærkvöldi og 15 slasaðir, þar af níu alvarlega, eftir hryðjuverkaárásina í miðborg Stokkhólms í gær.

Anna Sigríður Einarsdóttir

Ingveldur Geirsdóttir

Stefán Gunnar Sveinsson

Fjórir voru látnir í gærkvöldi og 15 slasaðir, þar af níu alvarlega, eftir hryðjuverkaárásina í miðborg Stokkhólms í gær. Einn maður hafði þá verið handtekinn, grunaður um að standa að árásinni. Maðurinn var handtekinn í verslun í Märsta, einu úthverfa Stokkhólms, þar sem hann hagaði sér undarlega. Samkvæmt vef Aftonbladet var maðurinn með minniháttar meiðsl, glerbrot á fötunum og lambhúshettu sem huldi andlitið að mestu. Á hann að hafa sagst vera sekur um árásina. Maðurinn er 39 ára gamall og er sagður vera frá Úsbekistan en skráður til heimilis í Stokkhólmi. Hann á að hafa áður lýst yfir stuðningi við hryðjuverkasamtökin Ríki íslams. Samkvæmt sænsku lögreglunni svipar honum mjög til mannsins sem lögreglan lýsti eftir í gær í tengslum við árásina.

Árásin átti sér stað rétt fyrir klukkan þrjú að sænskum tíma í gær við Drottningargötu, sem er stærsta göngugata Stokkhólms. Árásarmaðurinn stal bláum flutningabíl sem var verið að afferma í hliðargötu út frá Drottningargötu og ók honum á fullri ferð inn í Åhléns-verslunarmiðstöðina með þeim afleiðingum að nokkrir létust og fjöldi slasaðist. „Það hefur verið ráðist á Svíþjóð. Allt bendir til hryðjuverkaárásar,“ sagði Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar.

Í kjölfar árásarinnar í Svíþjóð virkjaði greiningardeild ríkislögreglustjóra verklag hér á landi vegna hryðjuverkaárása í nágrannalöndum og fjölgaði sérsveitarmönnum á vakt yfir helgina þó að viðbúnaðarstig lögreglu hafi ekki verið hækkað, samkvæmt upplýsingum frá ríkislögreglustjóra. Því var beint til lögreglunnar á Suðurnesjum að vera sérstaklega vakandi vegna flugs frá Svíþjóð en ekki fékkst uppgefið hjá lögreglunni í Leifsstöð hvernig því yrði háttað, nema að gripið hefði verið til aðgerða vegna þessara mála í samráði við ríkislögreglustjóra.

Þá var því beint til lögregluliða að vera á varðbergi gagnvart grunsamlegu fólki og óvenjulegum atburðum sem gætu tengst áformum um stórfellda ofbeldisglæpi.