Óskilvirkt stjórnkerfi er að verða meiri háttar vandamál.

Á nokkrum undanförnum mánuðum hefur komið upp hvert málið á fætur öðru sem bendir til alvarlegs veikleika í íslenzka stjórnkerfinu. Að þar skorti skilvirkni í ríkum mæli og viðbrögð forstöðumanna stofnana og ráðuneyta hafa verið vandræðaleg, svo að ekki sé meira sagt. Jafnvel Ríkisendurskoðun hefur verið staðin að ótrúlega lélegum vinnubrögðum í sambandi við meint bótasvik í tryggingakerfinu og skýringar ríkisendurskoðanda ekki upp á marga fiska.

Það er fyrst og fremst Kastljós RÚV sem hefur opinberað þessa veikleika í stjórnkerfinu og með þeim hætti að athygli hefur vakið.

Þessi mál eru orðin svo mörg að það er ekki hægt að draga aðra ályktun af þeim en að of víða sé pottur brotinn í stjórnkerfi okkar, þótt vafalaust megi finna bjartari hliðar hér og þar.

Þetta gerist á sama tíma og vísbendingar eru um að „kerfið“ sé að seilast til meiri valda en því eru ætluð í stjórnskipan landsins. Jafnvel hafa vaknað upp spurningar um hvort „kerfinu“ hafi tekizt að plata Alþingi með nýrri löggjöf um opinber fjármál, sem í raun dragi verulega úr fjárveitingavaldi Alþingis.

Það er grundvallarmunur á stöðu kjörinna fulltrúa, hvort sem er á Alþingi eða í sveitarstjórnum og starfsmanna hins opinbera. Þingmenn og fulltrúar í sveitarstjórnum verða að standa fyrir gerðum sínum gagnvart kjósendum fjórða hvert ár. Það þurfa embættismenn ekki að gera.

Afleiðingar þess að embættismenn nái til sín meiri völdum en þeim er ætlað að hafa koma mjög skýrt fram í Brussel í höfuðstöðvum Evrópusambandsins. Þar er það embættismannakerfið sem hefur tekið völdin en kjörnir fulltrúar á Evrópuþinginu eru aukaatriði. Embættismannakerfið er að reyna að knýja í gegn ríkjabandalag í beinni andstöðu við þorra fólks í aðildarríkjum ESB. Þess vegna er Evrópusambandið í alvarlegri tilvistarkreppu sem getur endað með því að það splundrist.

„Kerfið“ hér á Íslandi er byrjað að snúast í kringum sjálft sig og eigin hagsmuni. Áratugum saman hefur þetta komið skýrast fram í utanríkisráðuneytinu, sem hefur ekki mörgum verkefnum að sinna af þeirri einföldu ástæðu að Ísland er svo lítið ríki að við skiptum engu máli á alþjóða vettvangi. Það væri hægt að loka mörgum sendiráðum Íslands í öðrum löndum, þar á meðal á Norðurlöndum, án þess að það hefði nokkur neikvæð áhrif á okkar hagsmuni. Utanríkisþjónustur, eins og þær eru upp byggðar í dag, eru leifar frá liðnum tíma.

Vinstrimenn á Íslandi, og reyndar víða annars staðar, hafa búið sér til „óvin“ sem hefur orðið miklu áhrifameiri í huga almennings og í almennum umræðum en raunveruleikinn gefur til kynna. Þar er átt við svonefnda „nýfrjálshyggjumenn“. Frá því að þeir komu fram á sjónarsviðið að ráði hér á landi laust fyrir 1980 hefur þróun íslenzka stjórnkerfisins á þeim tíma sem talinn hefur verið mesta áhrifaskeið „nýfrjálshyggjumanna“ verið á þann veg að það hefur stækkað verulega en ekki minnkað.

Það bendir til þess að frjálshyggjumennirnir hafi ekki haft roð við stjórnkerfinu nema þá að þeir hafi gengið því á hönd eða gert bandalag við það!

Nú er svo komið að það er að verða eitt brýnasta verkefnið í íslenzkum stjórnmálum að koma böndum á stjórnkerfi sem augljóslega stendur ekki undir nafni, sinnir ekki þeim verkefnum sem því er ætlað að sinna og er svo sannfært um eigið ágæti og stöðu að talsmenn þess hafa varla fyrir því að skýra sitt mál eða svara fyrir mistök og kæruleysi.

Lítið dæmi um það hvernig þetta kerfi leyfir sér að haga sér gagnvart fólki er umgengni þess við grasrótarsamtök hinna geðsjúku, sem nefnast Hugarafl. Fyrir nokkrum vikum var mynduð ný ríkisstjórn og heilbrigðisráðherra í henni er fulltrúi tiltölulega nýs stjórnmálaafls, sem heitir Björt framtíð. Þegar hann tók við embætti lagði hann sérstaka áherzlu á geðheilbrigðismál.

Skömmu fyrir síðustu helgi var fótunum kippt undan starfsemi Hugarafls með því að skera framlög til þess niður um sjö milljónir króna. Svo vill til að þeir sem eiga við geðraskanir að stríða hafa eignast fulltrúa á Alþingi, þar sem er Gunnar Hrafn Jónsson, þannig að rödd þeirra mun heyrast þar næstu árin. Gunnar Hrafn vakti athygli á því að þær upphæðir sem hér er um að ræða ná ekki einu sinni árslaunum eins þingsmanns.

Hvað ætli það fólk hafi verið að hugsa í stjórnkerfinu sem tók ákvörðun um að skera fjárframlag til Hugarafls niður um sjö milljónir? Eru miklar líkur á að það hafi verið að hugsa um þá einstaklinga sem allt árið um kring leita til þessara samtaka í örvæntingu sinni? Hefur þetta fólk sem tekur slíkar ákvarðanir komið í starfsstöðvar Hugarafls eða þess vegna Hlutverkaseturs, Geysis eða Geðhjálpar?

Það er hollt hverjum manni að koma þangað. Þar er hægt að kynnast öðru Íslandi en daglega ber fyrir augu. Og „kerfið“ myndi hafa gott af því.

Það er kominn tími á að stjórnkerfið á Íslandi taki upp aðra umgengnishætti við fólkið í þessu landi en það hefur tamið sér.

Það kemur alltaf að því að almennum borgurum er nóg boðið og reyndar misboðið. Og þá rísa þeir upp, eins og þeir gerðu í París fyrir rúmum 200 árum og eins og þeir hafa gert á Austurvelli aftur og aftur á undanförnum árum.

Það skyldi þó aldrei vera að Hugarafl eigi eftir að verða tákn slíkra tímamóta á Íslandi.

Styrmir Gunnarsson styrmir@styrmir.is

Höf.: Styrmir Gunnarsson styrmir@styrmir.is