Jóhann Gíslason fæddist á Úlfsstöðum í Blönduhlíð í Skagafirði 8. ágúst 1933. Hann lést á Dvalarheimilinu Ási í Hveragerði 2. apríl 2017.

Foreldrar hans voru hjónin Nikólína Jóhannsdóttir húsmóðir frá Úlfsstöðum í Blönduhlíð, f. 12. mars 1909, d. 24. mars 2002, og Gísli Gottskálksson skólastjóri, f. 27. febrúar 1900, d. 4. janúar 1960. Systkini Jóhanns eru: Sigrún, f. 11. júlí 1935, d. 15. janúar 2005, gift Guðmundi Hansen, f. 12. febrúar 1930. d. 30. ágúst 2012, Halldór, f. 21. apríl 1938, kvæntur Fanneyju Sigurðardóttur, Ingibjörg Salóme, f. 15. mars 1943, gift Óla Gunnarssyni, Konráð, f. 12. maí 1946, kvæntur Önnu Halldórsdóttur.

Tvö fyrstu æviár Jóhanns dvaldi hann ásamt foreldrum sínum í skjóli afa síns og ömmu, Jóhanns og Ingibjargar á Úlfsstöðum. 1935 flutti fjölskyldan í Sólheimagerði í Blönduhlíð og þar bjó hann þar til hann brá búi vegna heilsubrests á haustdögum 2010. Á aðventu það ár flutti Jóhann í eigið húsnæði í Hveragerði. Jóhann bjó allan sinn búskap með blandað bú. Fyrr á árum fór Jóhann nokkrum sinnum til Norðurlandanna, meðal annars í námsferð til Noregs og að heimsækja skyldmenni og kunningja. Jóhann var ógiftur og barnlaus.

Útför Jóhanns fer fram frá Miklabæjarkirkju í dag, 8. apríl 2017, og hefst athöfnin klukkan 14.

Elsku Jóhann, þá er komið að kveðjustund.

Allt hefur sinn tíma en samt finnst okkur hann afstæður.

Það var nóg að gera í sveitinni og þú sást lítið inni við. Ég var ekki hár í loftinu þegar ég fór að trítla með þér í útiverkin. Þegar ég hafði aldur til varst þú góður leiðbeinandi hvort heldur var að læra að sitja hest eða stjóna vélunum. Við fórum oft í fyrirdrátt í Vötnunum sem þá var leyfilegt. Það var oft mikið gaman ef vel veiddist og þú naust þess út í ystu æsar. Við fórum stundum í stuttar dagsferðir á sumrin ef tækifæri gafst frá heyönnum og öðrum daglegum störfum. Þú varst fróður um marga sögustaði og sagðir skemmtilega frá.

Þannig liðu bernsku- og unglingsárin við leik og störf. Á fullorðnisárunum var mikill samgangur okkar á milli. Við komum oft í heimsókn í Sólheimagerði til ykkar mömmu meðan hún lifði og þið hingað til okkar. Systkinabörnin voru um áratugaskeið hjá ykkur á sumrin eins og alsiða var þá og lærðu til verka sem komu þeim til góða síðar meir.

Minningin er ljós sem lifir. Nú að leiðarlokum er margs að minnast og margt að þakka. Við þökkum þér allar góðu stundirnar. Blessuð sé minning þín og megir þú hvíla í friði.

Konráð og Anna.

Vinur minn og mágur, Jóhann Gíslason, er látinn á 84. aldursári. Kynni okkar Jóhanns ná allt aftur til 1965 þegar ég trúlofaðist systur hans, Ingibjörgu Salóme. Upp frá því áttu ferðirnar norður í Sólheimagerði eftir að verða margar, sérstaklega minnist ég ferða um jól og í heyskap. Jóhann var gestrisinn, veitull og góður heim að sækja.

Skólaganga Jóhanns var ekki löng. Hann var í farskóla í skólastofunni í kjallaranum í Sólheimagerði og kennarinn var faðir hans, Gísli Gottskálksson. Síðan tók við lífsins skóli. Jóhann fór ungur að taka til hendi við búskapinn og barn að aldri var hann farinn að teyma kerruklára í vegavinnu. Við fráfall föður síns, 1960, tók Jóhann ásamt móður sinni, Nikólínu, alfarið við búskapnum. Þetta fyrirkomulag hélst þar til Nikólína lést, 2002, en þá hafði Jóhann keypt jörðina. Jóhann bjó blönduðu búi, en var, að mér fannst, áhugasamari um kúabúskapinn en um kindurnar. Í fjósinu undi hann sér vel, söng með sínu nefi og kyrjaði ljóð og lausavísur. Það gat verið gaman að líta til hans í fjósinu og heyra eins og eina góða sögu eða einhver gamanmál. Eins og fyrr er getið var skólaganga Jóhanns ekki löng, en hann var víðlesinn og alveg stálminnugur, kunni t.d. fjölda kvæða utan að. Eftirherma góð var Jóhann, þó að hann flíkaði þeirri kúnst ekki mjög. Jóhann hafði lengi framan af ævi yndi af hvers kyns veiðiskap, svo sem silungsveiði í Héraðsvötnunum og að ganga til rjúpna. Þótt Jóhann væri í raun bæði heimakær og bundinn af búskaparstússi naut hann þess þá sjaldan að tækifæri gafst að hleypa heimdraganum og skoða landið sitt eða að líta aðeins á frændur vora í Skandinavíu. Upp úr síðustu aldamótum fór að bera á heilsuleysi hjá Jóhanni og dvaldi hann nokkrum sinnum á heilsuhæli NLFÍ í Hveragerði. Jóhanni leið vel í Hveragerði og þegar hann brá búi, 2010, keypti hann hús við Lækjarbrún þar í bæ. Því miður naut Jóhann þess ekki lengi að búa í þessu góða húsi.

Heilsu Jóhanns hafði enn hrakað og 2014 fór hann á dvalarheimilið Ás í Hveragerði og átti ekki þaðan afturkvæmt. Sérstakar þakkir sendi ég nágrönnum Jóhanns í Blönduhlíðinni fyrir aðstoð og hjálp þegar vinnuþrekið minnkaði hjá honum. Einnig þakkir til starfsfólks Áss fyrir umhyggju og góða umönnun. Ég og fjölskylda mín minnumst Jóhanns með söknuði og þökkum fyrir margar ánægjulegar samverustundir. Far í friði, góði vinur. Ég sendi systkinum og öðrum ættingjum Jóhanns innilegar samúðarkveðjur.

Óli Gunnarsson.

Það var um fimm ára aldurinn sem við fórum að fara í Sólheimagerði í sveit hjá ömmu okkar og Jóhanni frænda. Upp frá því var það fastur liður þegar skóla lauk á vorin að haldið var í sveitina og urðu sumurin hátt í 10. Vinnudagurinn var oft mjög langur og lærdómsríkt að kynnast fjölbreyttum störfum í sveitinni. Jóhann leiðbeindi okkur vel og þær voru margar sögurnar sem hann sagði okkur enda var hann mikill sögumaður.

Það er minnisstætt þegar við vorum að komast á unglingsárin og verslunarmannahelgi var haldin í Miðgarði með stórum sveitaböllum alla helgina. Þá fengum við það skemmtilega hlutverk að eyða allri helginni í að stinga út úr fjárhúsunum.

Þá hafði Jóhann á orði að það lægi ekkert á að fara að stunda böllin, það yrði nægur tími seinna. Trúlega var það rétt hjá honum og vissulega var bætt úr svo um munaði síðar meir.

Við geymum góðar minningar frá sumrunum í Sólheimagerði, þar lærði maður að vinna, kynntist dýrunum, lærðum að nota vinnuvélar, upplifðum náttúruna og sveitasímann og urðum vitni að mörgum gullfallegum sumarkvöldum í Skagafirði við heyskap úti á túnum.

Við kveðjum Jóhann og þökkum fyrir allar góðu stundirnar sem við munum búa að alla ævi. Blessuð sé minning hans.

Elvar Atli og Davíð Örn

Konráðssynir.

Ég vil kveðja Jóhann móðurbróður minn í Sólheimagerði með þessum línum. Í sveitinni hjá honum og ömmu var ég öll sumur á uppvaxtarárunum 1960 til 1972. Við vorum bræðurnir vinnumenn á sumrin hver á eftir öðrum og stundum tveir í einu og oft var fleira af frændfólki i kaupavinnu, þar á meðal nafni minn. Auk frændfólks var annað vinnufólk við störf með okkur yfir sumartímann en þetta var á árunum áður en nýjasta tækni við heyvinnuverkin kom til sögunnar og þessum árum tilheyrði heilmikil líkamleg erfiðisvinna, s.s. að moka í blásara eða troða böggum efst í hlöðuna. Miðpunktur í búskapnum voru kýrnar 14 þannig að einnig unnum við í fjósinu og síðan var Jóhann með fé og ekki eru sístar minningar frá útreiðartúrum og annarri hestamennsku og síðan veiðum í vötnunum. Traktorar voru spennandi tæki að læra á og keyra. Í sveitinni lærðum við að vinna, þar voru skin og skúrir og þar var líf og fjör.

Jóhann leiddi bústörfin farsællega og hafði gott lag á vinnufólki sínu. Starfsævin varð löng við bústörfin. Jóhann stóð fyrir sínu. Jóhann flutti til Hveragerðis þegar hann hætti með búskapinn í Blönduhlíðinni og átti þar góð ár. Jóhann var félagslyndur og átti marga vini. Hann fylgdist vel með fréttum og hafði gaman af að segja sögur og sagði vel frá. Far vel, frændi.

Gísli Hansen Guðmundsson.