[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Handbolti Kristján Jónsson kris@mbl.

Handbolti

Kristján Jónsson

kris@mbl.is Ágúst Birgisson hefur sprungið út fyrir alvöru í búningi FH í Olís-deildinni í vetur og á stóran þátt í því að liðið náði efsta sæti í deildakeppninni og þar með heimaleikjarétti í úrslitakeppninni um Íslandsmeistaratitilinn sem er handan við hornið. Ágúst var verðlaunaður fyrir frammistöðu sína á fimmtudaginn þegar hann var valinn í lið mótsins.

„Ég æfði vel í sumar og fékk tækifærið. Hef æft vel í vetur og er með frábæran þjálfara og öfluga liðsfélaga,“ sagði Ágúst og neitar því ekki að í vetur hafi hann í fyrsta skipti fengið tækifæri til að vera byrjunarliðsmaður að jafnaði í meistaraflokki.

„Já, mér finnst það. Ég þakka Dóra (Halldóri Jóhanni Sigfússyni, þjálfara FH) fyrir það. Hann sá eitthvað í mér sem aðrir sáu ekki. Ég ætlaði að sanna fyrir honum og mér sjálfum að ég gæti eitthvað í handbolta.“

Eftir góða frammistöðu Ágústs og FH-liðsins þá er sjálfstraustið í botni hjá honum um þessar mundir. „Sértaklega var gott að ná að vinna deildina. Það eykur sjálfstraustið helling. Við höfum verið góðir í vetur á heildina litið. Okkur finnst við vera bestir og ætlum að gera eins vel og við getum í framhaldinu,“ sagði Ágúst en FH-inga bíður að glíma við Gróttu í 8-liða úrslitum Íslandsmótsins.

„Þeir eru með frábært lið. Eru stórir og sterkir en auk þess með góða markmenn. Eins og deildin hefur verið þá geta allir unnið alla. Hugarfarið, viljastyrkurinn og ástandið á mönnum mun skera úr um úrslitin. Þá sjáum við hvort liðið langar meira að komast áfram. Við stefnum á að vinna titilinn. Það verður mjög erfitt en er okkar markmið,“ sagði Ágúst.

Nánast með tvo þjálfara

Íþróttaheimurinn á Íslandi er ekki ýkja stór og alls kyns tengingar á milli fólks þar að finna. Ágúst er línumaður og öflugur varnarmaður enda stór og hraustur. Faðir hans var einnig fyrirferðarmikill línumaður hjá Fram, Víkingi og landsliðinu en það er Birgir Sigurðsson. Þar sem Ágúst leikur sömu stöðu á vellinum þá hefur faðirinn væntanlega skoðanir á því hvernig sonurinn stendur sig?

„Maður er nánast með tvo þjálfara. Um leið og maður kemur heim þá tala ég við hann um hvað ég gerði vel og hvað ég gerði illa. Við tölum mikið saman og hann hjálpar mér mjög mikið,“ sagði Ágúst Birgisson í samtali við Morgunblaðið.