Birna Sumarrós Helgadóttir fæddist 8. febrúar 1950. Hún andaðist 24. mars 2017.

Útför Birnu Sumarrósar fór fram 3. apríl 2017.

Með fráfalli Birnu okkar höfum við á B5 á Landspítalanum misst mikilhæfan samstarfsmann og félaga. Það er því með söknuði og trega að við kveðjum þessa góðu konu, en um leið þakklæti fyrir að hafa notið samvista við hana og hennar leiðsagnar. Birna kom til starfa við bæklunardeildina, sem þá hét A3 sjúkradeild á Borgarspítalanum, árið 1985 og á því ásamt Rögnu vinkonu sinni lengstan starfsaldur á deildinni, eða yfir þrjá áratugi. Birna var afburða sjúkraliði og þeir eru margir sjúklingarnir sem hafa notið góðs af faglegum metnaði hennar og umhyggju. Þá eru þeir ófáir sjúkraliðanemarnir sem fengið hafa hvatningu og handleiðslu undir leiðsögn hennar, en Birna hafði umsjón með verklegri kennslu sjúkraliðanema til fjölda ára ásamt því að þjálfa þá fyrir árlega keppni iðngreina.

Birna hafði mikinn metnað fyrir hönd starfsgreinar sinnar og fór meðal annars á vegum Samnorrænu ráðherranefndarinnar til Svíþjóðar og Danmerkur, þar sem hún dvaldi í mánuð til þess að kynna sér starfsemi sjúkrahúsanna þar. Hún var yfirtrúnaðarmaður sjúkraliða á Borgarspítalanum í mörg ár og af hugrekki og metnaði barðist hún fyrir félagið, auk þess sem hún sat í ýmsum nefndum fyrir Sjúkraliðafélag Íslands þar sem hún lagði sitt af mörkum til að bæta hag og ímynd stéttarinnar.

Birna lék alltaf stórt hlutverk í tilveru okkar á B5. Hún hafði sterkar skoðanir, var hreinskilin og kom með góðar ábendingar um hvað mætti betur fara. Hún var mikilvægur liðsmaður í hvers kyns umbótastarfsemi og alltaf boðin og búin að veita liðsinni sitt þegar eftir var leitað. Hún var einnig hörkudugleg og drífandi og hafði hvetjandi áhrif á aðra. Síðast en ekki síst var Birna skemmtilegur félagi sem lét sig aldrei vanta þegar við gerðum okkur glaðan dag. Það er því mikill missir af glaðværð hennar og smitandi hlátri á kaffistofunni.

Síðustu mánuðina dvaldi Birna á líknardeild Landspítalans í Kópavogi, sem líkist fremur hlýlegu heimili en sjúkrastofnun. Í friðsæld og fögru umhverfi naut hún þar umönnunar og þjónustu, ástúðar og umhyggju frá stéttarsystrum sínum sem sinntu frábæru starfi. Það er sárt að horfast í augu við þá staðreynd að Birna sé farin í leiðina löngu langt fyrir aldur fram. Hún sem hafði svo margt að lifa fyrir. Megi það verða okkur sem eftir lifum hvatning um að vera þakklát fyrir það sem við höfum og temja okkur auðmýkt og virðingu fyrir hvort öðru.

Um leið og ég minnist Birnu sem afburða sjúkraliða og góðrar samstarfskonu þakka ég fyrir störf hennar á bæklunardeildinni og sendi Boga, börnum þeirra og barnabörnum hugheilar samúðarkveðjur.

Fyrir hönd samstarfsfólks á B5,

Ingibjörg

Hauksdóttir.