Leikið Grunnskólinn á Höfn í Hornafirði setti nýlega upp Kardimommubæinn við góðar undirtektir.
Leikið Grunnskólinn á Höfn í Hornafirði setti nýlega upp Kardimommubæinn við góðar undirtektir. — Morgunblaðið/Halldóra
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Úr bæjarlífinu Albert Eymundsson Höfn Unga fólkið á Hornafirði hefur átt sviðið undanfarið. Það er full ástæða til að vekja athygli á framgöngu unga fólksins þegar það stendur sig vel og er að gera góða hluti.

Úr bæjarlífinu

Albert Eymundsson

Höfn

Unga fólkið á Hornafirði hefur átt sviðið undanfarið. Það er full ástæða til að vekja athygli á framgöngu unga fólksins þegar það stendur sig vel og er að gera góða hluti. Það er fátt meira þroskandi fyrir krakkana en þátttaka í öguðum og krefjandi félagsstörfum.

Þórdís Imsland komst í úrslitakeppni Voice Island. Frammistaða og framkoma hennar var til fyrirmyndar og á hún framtíðina fyrir sér á þessu sviði ef hún velur þá braut.

Hljómsveitin Misty, sem þrír ungir tónlistarmenn, Birkir Þór Hauksson, Þorkell Ragnar Grétarsson og Ísar Svan Gautason skipa, komst í úrslit í Músíktilraunum um daginn. Þeir sýndu góða færni og ekki síður mikinn kjark að leika eigið tónverk sem tók 15 mínútur. Enn og aftur sannast mikilvægi Tónskólans okkar og árangur af starfinu þar.

Piltur og stúlka vöktu mikla lukku í frumlegri og skemmtilegri uppfærslu nemenda framhaldsskólans og í samvinnu við leikfélagið og uppselt var á allar sýningarnar.

Kardemommubærinn var svo viðfangsefni nemenda í grunnskólanum.

Nemendur 1., 3., 5. og 7.-10. bekkjar sáu um söng og leik en allir nemendur skólans unnu að leikmynd og búningagerð auk þess að útbúa veitingar. Nemendur höfðu einnig búið til leirblóm sem voru seld á hátíðinni en ágóði af þeirri sölu fer til kaupa á leirrennibekk fyrir smiðjurnar. Hátíðin var vel sótt og seldust yfir 400 miðar á sýninguna.

Jöklar í bókmenntum , listum og lífinu er yfirskrift ráðstefnu sem haldin verður á Hornafirði helgina 28.-30. apríl. Til ráðstefnunnar er boðið rithöfundum og fræðimönnum á sviði bókmennta, myndlistar og jöklafræða. Settar verða upp ýmsar sýningar, s.s. málverkasýning, ljósmyndasýning, kortasýning, handverkssýning, sýning á teikningum barna og heimildarmyndin Jöklaland.

Kóravertíðin stendur nú yfir og það eru ekki aðeins heimakórarnir sem halda uppskeruhátíðir með tónleikum og uppákomum heldur koma ýmsir kórar í heimsókn og auðga menningarlífið í héraðinu.

Atvinnulífið blómstrar . Hefðbundinni vetrarvertíð lauk um miðjan marsmánuð og eftir langt sjómannaverkfall má segja að þokkalega hafi ræst úr vertíðinni. Afli var góður í flest veiðafæri og humarveiðar eru hafnar. Þær fóru af stað um leið og búið var að skipta um veiðarfæri. Sömuleiðis gengu loðnuveiðar mjög vel enda Ósinn fær flesta daga.

Ekkert lát er á uppgangi í ferðaþjónustunni, miklar framkvæmdir og þessu öllu fylgir eftirspurn eftir auknu vinnuafli og íbúðarhúsnæði.