Gústaf Magnússon fæddist 11. nóvember 1942. Hann lést 30. mars 2017.

Útför Gústafs fór fram 7. apríl 2017.

Elsku pabbi minn. Nú er víst komið að hinstu kveðjustund.

Ég sit hér í Garðaholti á Álftanesinu. Ég horfi á sólarlagið, sjóinn og höfnina þína, sem alltaf var svo stór partur af lífi þínu. Út úr höfninni siglir togari á leið frá bryggju og út á miðin. Alveg eins og þú, nema þú stefnir í átt til þessa fallega sólarlags alla leið til Sumarlandsins og verða okkar endurfundir ekki fyrr en minn tími kemur, sem verður þá væntanlega þegar þú kemur og sækir mig.

Minningarnar um þig, elsku pabbi, eru óteljandi og gæti ég aldrei komið öllum þeim góðu minningunum mínum sem ég á um þig og okkur niður á blað.

Þú varst svo stór partur af lífi mínu og við vorum svo náin, svo miklir vinir.

Í þér átti ég ekki bara föður sem ég leit upp til og virti. Í þér átti ég einn minn besta vin. Vin sem ég gat alltaf leitað til með allt sem mér lá á hjarta, hvort sem það var til að segja þér frá því sem ég var að gera, spjalla um daginn og veginn, bara hlæja aðeins eða fá ráðleggingar eða álit þitt um alla hluti milli himins og jarðar. Ég sagði þér allt og þú veist það, hluti sem ég efa að börn segðu foreldrum sínum, þú sagðir það líka við ófáa: „Silla segir mér allt“ og þannig vorum við. Við vorum svo náin og miklir vinir. Þú hafðir alltaf tíma fyrir mig, ráð eða hvatningu. Þú varst svo fordómalaus, svo mannlegur og skilningsríkur en fyrst og fremst hreinskilinn, hreinn og beinn og þú sagðir hlutina hreint út og lást ekki á þínum skoðunum.

Ég þakka þér fyrir allt sem þú hefur gefið og kennt mér, pabbi. Fyrir fallegu vináttuna okkar sem einkenndist af fordómaleysi og kærleik, fyrir allar fallegu minningarnar. Missirinn er mikill og verður þetta hálflitlaust án þín, svo mikið er víst. Þú varst svo skemmtilegur. Húmorinn þinn var svo skemmtilegur, beinskeyttur og fyrst og fremst stríðinn. Stundum áttirðu það til að ganga jafnvel of langt í því eins og öðru, en það varst bara þú.

Þú fórst alltaf þínar eigin leiðir og sagðir hug þinn, sama hver hann var og sama hvað öðrum fannst. Þú lást aldrei á skoðunum þínum og var það líka það sem einkenndi þig, hversu sterkur persónuleiki þú varst. Einstakur. Grjótharður skipstjóri af gamla skólanum. En þú varst líka með svo fallegt hjarta, elsku pabbi, og góður við þá sem þér líkaði við og þér þótti vænt um, en þú varst sko ekki allra. Þú máttir ekkert aumt sjá. Ef það voru erfiðleikar, þá vildir þú gera það sem þú gast til að leysa þá, þú vildir að öllum liði vel. Þú tókst að þér fólk sem varð á vegi þínum og oft sást til þín gefa heimilislausu fólki pening og skutlast með það ef þörf var á. Þú hafðir gaman af dýrum og talaðir oft um blómin hennar mömmu og Elínar, þó þú myndir líklega aldrei viðurkenna að þú værir fyrir blóm eða dýr. Það var ekki alveg þinn stíll kannski.

Elsku pabbi, þú varst stoð mín og stytta í lífinu og veit ég satt best að segja ekki alveg hvernig ég mun fara að án þín, en svona er víst lífið eins og þú sagðir alltaf. Núna er komið að þessari sorgarstund sem ég hef alltaf kviðið svo mikið fyrir. Við börnin þín, Stýrið (Heiða), Þverhausinn (Ágúst) og Greppitrýnið ég eins og þú kallaðir okkur alltaf, okkur börnin þín, munum sakna þín óendanlega sem og barnabörnin þín. Hún Alexandra mín, sem ég er svo fegin að hafi kynnst þér vel, saknar afa „tattú“ sárt, missir okkar allra er sár og mikill.

Það er huggun í því að vita af þér hjá mömmu og ömmu og vita að núna líður þér vel og ég veit líka að þú munt fylgja mér hvert fótspor og passa upp á litla Greppitrýnið þitt hvar sem er, hvenær sem er þar til við hittumst aftur.

Ég mun aldrei gleyma þér. Guð geymi þig, elsku pabbi minn.

Sigurlín Gústafsdóttir.

Elsku Gústi minn, ekki veit ég af hverju þú varst kallaður svona snögglega í burtu frá okkur. Við áttum mörg skemmtileg ár saman. Ferðuðumst um haf og lönd, vorum góðir og sannir vinir. Ég mun sakna þess að fá ekki símhringingu frá þér, hvort sem ég var á landinu eða erlendis. Stutt var í húmorinn og stríðnina, en það áttum við sameiginlegt. Elsku Heiða, Ágúst og Silla, þið eigið góða og fallega minningu um yndislegan föður og barnabörnin um skemmtilegan og frábæran afa. Það er sárt að missa, en góðar minningar lifa lengst. Takk fyrir allt og allt, elsku vinur.

Þín vinkona

Jóna Þórunn.