N1 á Ægisíðu Borgin vill ekki fjölgun bensínstöðva og er tilbúin til viðræðna við yfirvöld um fækkun þeirra.
N1 á Ægisíðu Borgin vill ekki fjölgun bensínstöðva og er tilbúin til viðræðna við yfirvöld um fækkun þeirra. — Morgunblaðið/Þórður
Sigtryggur Sigtryggsson sisi@mbl.is Samkeppniseftirlitið hefur sérstakar áhyggjur af samkeppnisskilyrðum á eldsneytismarkaðnum í Reykjavík, en sveitarfélagið hafði markað stefnu í aðalskipulagi um að sporna gegn fjölgun eldsneytisstöðva. Þetta kemur...

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Samkeppniseftirlitið hefur sérstakar áhyggjur af samkeppnisskilyrðum á eldsneytismarkaðnum í Reykjavík, en sveitarfélagið hafði markað stefnu í aðalskipulagi um að sporna gegn fjölgun eldsneytisstöðva. Þetta kemur m.a. fram í áliti stofnunarinnar til Reykjavíkurborgar vegna skipulagsmála.

Fram kemur í álitinu það mat Samkeppniseftirlitsins að tryggja yrði að hvorki stefnan sem slík né framkvæmd sveitarfélagsins leiddi af sér aðgangshindrun fyrir nýja eða minni keppinauta á svæðinu. Brýnt væri að stjórnvöld gripu til nauðsynlegra aðgerða til að tryggja að samkeppnishindranir af þessu tagi ættu sér ekki stað af hálfu hins opinbera.

Borgin tilbúin í samstarf

Álit Samkeppniseftirlitsins var tekið til afgreiðslu á síðasta fundi borgarráðs. Meirihlutinn, þ.e. borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata, lagði fram svohljóðandi bókun:

„Með vísan til þess er fram kemur í áliti Samkeppniseftirlitsins um að stofnunin sé reiðubúin að vinna með Reykjavíkurborg, sem og öðrum sveitarfélögum, með það að markmiði að tryggja að stefna í aðalskipulagi og fyrirkomulag skipulagsmála hamli ekki samkeppni óskar borgarráð eftir samstarfi við Samkeppniseftirlitið um hvernig fækka megi bensínstöðvum í Reykjavík, m.a. á grundvelli loftslagsmarkmiða Reykjavíkurborgar og stjórnvalda, án þess að samkeppnissjónarmiðum sé ógnað.“

Borgarráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina lagði fram bókun þar sem sagði m.a:

„Það er mat Samkeppniseftirlitsins að háttsemi Reykjavíkurborgar raski samkeppni á eldsneytismarkaðnum almenningi til tjóns og því er beint til borgarinnar að beita sér fyrir aðgerðum sem miða að því að draga úr samkeppnishömlum og leiti leiða til að tryggja að málefnalegum umhverfismarkmiðum verði náð án þess að það feli í sér beinar aðgangshindranir að eldsneytismarkaði sem sporna gegn vaxtamöguleikum smásala.“

Borgarráðfulltrúar Sjálfstæðisflokksins bókuðu m.a. að eðlilegt væri að borgin heimilaði aðilum að setja upp bensínstöðvar með minni yfirbyggingu, s.s. sjálfsafgreiðslustöðvar á smærri lóðum eða á lóðum þar sem fólk gerir stórinnkaup. Slíkt myndi til lengri tíma skapa hvata fyrir núverandi stærri keppinauta til að bregðast við og hagræða í rekstri, mögulega með fækkun bensínstöðva á stærri sérlóðum.

Fram kemur í frummatsskýrslunni að Samkeppniseftirlitið hafi aflað sjónarmiða olíufélaganna. Fram hafi komið vísbendingar um að víða væri pottur brotinn við undirbúning sveitarfélaga að lóðaúthlutunum og skipulagsákvörðunum, þar sem ekki væri litið til áhrifa á samkeppni samhliða öðrum málefnalegum sjónarmiðum. Í því sambandi var sérstaklega vísað til umhverfis- og auðlindastefnu Reykjavíkurborgar varðandi skipulagsgerð og lóðaúthlutanir undir eldsneytisstöðvar og aðalskipulag sveitarfélagsins þar sem fyrirfram væri búið að móta það viðmið að stefnt skyldi að því að ekki væri úthlutað lóðum undir nýjar eldsneytisstöðvar nema eldri stöðvar í Reykjavík yrðu lagðar niður á móti.