Margrét Björk Agnarsdóttir fæddist á fæðingardeild Sólvangs í Hafnarfirði 27. febrúar 1966. Hún lést á krabbameinslækningadeild Landspítalans við Hringbraut 26. mars 2017 eftir stutt en erfið veikindi.

Foreldrar hennar voru Agnar Bjarg Jónsson, f. 1937, frá Siglufirði og Kristbjörg Elma Elíasdóttir, f. 1940, frá Ólafsvík. Margrét var önnur í röð fimm systkina. Systkini í aldursröð eru Kolbrún Sjöfn Indriðadóttir, f. 1960, maki Sigurjón Jónsson, f. 1960, Agnar Páll Agnarsson, f. 1969, maki Steinþóra Ólafsdóttir, f. 1970, Grétar Þór Agnarsson, f. 1972, maki Hilda Ólafsdóttir, f. 1973, Linda Dögg Agnarsdóttir, f. 1978, maki Stefán Jóhann Sæmundsson, f. 1975. Margrét giftist Gunnari Sigurðssyni, f. 1963, hinn 18. september 1999. Dætur þeirra eru Birta Gyða Gunnarsdóttir, f. 1998, og Gunnhildur Sól Gunnarsdóttir, f. 2000. Úr fyrra sambandi átti Margrét með Ásgeiri Hálfdáni Vilhjálmssyni, f. 1965, dótturina Guðrúnu Ýri Ásgeirsdóttur, f. 1984, maki Ole Kristian Richstad, f. 1976. Börn þeirra eru Freyja Sofie, f. 2012, og Cecilia Björk, f. 2015. Margrét var fædd og uppalin í Hafnarfirði, lauk hún gagnfræðaprófi frá Lækjarskóla og byrjaði nám í tækniteiknun við Iðnskólann í Hafnarfirði. Hún stundaði íþróttir af kappi, bæði í handbolta og í frjálsum. Árið 1983 fluttist hún til Keflavíkur og vann þar hin ýmsu störf, þar með talið rak hún myndbandaleigur og stofnaði hreingerningafyrirtækið Allt hreint sf. ásamt vinafólki. Árið 1995 fluttist hún aftur til Hafnarfjarðar og vann í fjölda ára hjá Ríkisskattstjóra þar til hún fór í frekara nám. Hún útskrifaðist frá háskólabrú Keilis 2009 og lá leið hennar þaðan í mannfræði við Háskóla Íslands og lauk hún BS-gráðu sinni þar 2013. Hugur hennar stefndi enn hærra og byrjaði hún í meistaranámi í afbrotafræði við Háskóla Íslands. Hún vann sem launafulltrúi á hjúkrunarheimilinu Skógarbæ frá 2016 og vann þar, þar til yfir lauk. Hagsmunamál minnihlutahópa voru henni hjartfólgin, og var hún ein af stofnendum félagssamtakanna Williams-samtökin á Íslandi. Hún hafði mikla unun af matargerð, lestri góðra bóka og af því að ferðast bæði innan- og utanlands. Fjölskyldan var þó hennar líf og yndi og alltaf í fyrsta sæti.

Útför Margrétar fór fram í kyrrþey 6. apríl 2017 frá Fríkirkjunni í Hafnarfirði.

Elsku mamma mín.

Hvað get ég sagt? Hvernig get ég kvatt þig? Við sem ætluðum að verða gamlar saman, sitja saman á elliheimilinu, spila kana og hlæja eins og vitleysingar!

Það er mér óskiljanlegt að ég eigi aldrei eftir að tala við þig aftur, heyra rödd þína og hlátur, að fá ráð við öllu mögulegu, hvort sem er um tísku, nám og vinnu, hjónaband, móðurhlutverkið eða jafnvel bara nýjustu uppskriftina sem við vorum að prufa. Að núna séu ekkert nema óteljandi dýrmætar minningar eftir.

Ein af mínum fyrstu virkilega skýru, heilu minningum um þig er þegar ég var um það bil fimm ára og þú söngst fyrir mig á hverju kvöldi fyrir háttinn. Þetta kvöld sastu við hliðina á rúminu mínu, straukst á mér handlegginn eins og þú gerðir svo oft og söngst hvert lagið á fætur öðru. Ég lá þar með lokuð augun í djúpri slökun og naut þessarar stundar svo óskaplega. Eftir langa stund þagnaðir þú og stóðst rólega á fætur og gekkst í átt að dyrunum, þú opnaðir þær varlega og varst alveg að verða komin út úr herberginu mínu þegar ég hvíslaði „ég er ekki sofnuð“ og þú snerir við, án minnsta pirrings eða reiði, settist aftur við hliðina á mér og söngst mig í svefn með Sofðu unga ástin mín.

Sofðu unga ástin mín,

– úti regnið grætur.

Mamma geymir gullin þín,

gamla leggi og völuskrín.

Við skulum ekki vaka um dimmar nætur.

Það er margt, sem myrkrið veit,

– minn er hugur þungur.

Oft ég svarta sandinn leit

svíða grænan engireit.

Í jöklinum hljóða dauðadjúpar sprungur.

Sofðu lengi, sofðu rótt,

seint mun best að vakna.

Mæðan kenna mun þér fljótt,

meðan hallar degi skjótt,

að mennirnir elska, missa, gráta og sakna.

(Jóhann Sigurjónsson)

Þetta er bara ein af mörgum minningum mínum um ást þína, umhyggju og blíðu. Og þó að þú hafir ekki fengið mikinn tíma með „ömmumúsunum“ þínum, þá búa þær vel að öllum minningunum sem þið bjugguð til saman og við Ole munum hjálpa þeim að hlúa að þeim og varðveita. Að þær viti að amma þeirra var „Ofurmús“ með risastórt hjarta, sem sá það góða og jákvæða hvert sem hún leit. Og að ást hennar var og er ótakmörkuð og býr ávallt í hjarta okkar.

Elsku mamma mín, ég þakka fyrir hvern dag sem ég fékk með þér, fyrir hvert orð sem við skiptumst á og fyrir hvern draum sem við deildum. En mest af öllu sit ég hér og er þakklát fyrir að það varst akkúrat þú sem ég fékk fyrir móður. Þú ert og verður alltaf leiðarljós mitt.

Ég elska þig.

Guðrún Ýr.

Til þín.

Eins og marglit blóm á engi

óendanleikans.

Er kærleikur hugsana okkar

til þín.

Þú sem ert látin

farin á braut hins óþekkta

sem okkur eftirlifendum er hulið.

Dýrmætar minningar líða hjá

árin okkar saman.

Brosið þitt og faðmur þinn svo hlýr

þú bara þú.

En hér er ekkert sem sýnist

í gjörningar þoku og sárustu sorgum.

En þar sem þú ert

erum við hjá þér

í huga okkar og sinni.

Óskirnar fljúga víða

um alheims himna.

Í ljóðinu okkar er um þig

þessi tæra fegurð kærleikans

sem er það göfugasta og besta

í mannssálinni.

(S. Ósk Óskarsdóttir)

Hvíl í friði, elsku Magga okkar.

Kveðja,

Mamma, pabbi og systkini.

Nú er komið að kveðjustund, elsku Magga mín. Ég vildi svo gjarnan sitja í eldhúsinu hjá þér núna, með rjúkandi kaffibolla í stað þess að sitja hér ein og skrifa ótímabær minningarorð um einstaka manneskju og vin. Ég vildi geta deilt með þér fleiri sögum af börnum okkar og barnabörnum, lært meira af reynslu þinni í málefnum fatlaðra og hlegið einu sinni enn að spaugilegum minningum úr Firðinum. Ég vil vera um stund í háum Nokia-stígvélum og mittisúlpu. Hugurinn leitar til 1976, í Hafnarfjörðinn, upp á Álfaskeið, í bakgarðinn hjá þér. Þar mátti sjá okkur öllum stundum, í sitt hvorri rólunni, syngjandi íslensk ljóð og söngva. Við röltum á stundum niður Álfaskeiðið og heimsóttum bekkjarsystur, jafnvel alla leið í sjoppuna neðst á Hverfisgötunni. Við leystum lífsins gátur saman, og þó að einstakar samræður séu mér gleymdar er sú hlýja og jákvæðni sem einkenndi þig alltaf fersk í minni mér. Þú sást alltaf til sólar, og sú birta varpaði á aðra ljósi.

Þú varðst ung móðir og geislaðir í móðurhlutverkinu. Guðrún Ýr, nafna mín, fæddist fyrst og síðan bættust Birta Gyða og Gunnhildur Sól við. Þú nefndir þær yngri oft „Birtan mín og Sólin“, og nafnavalið svo fullkomlega í takt við lífssýn þína. Þegar ljóst var að Gunnhildur Sól var lífshættulega veik stuttu eftir fæðingu þá varst þú klettur og fyrir mér ertu löngu orðin móðir aldarinnar. Þú kvartaðir aldrei, og sást alltaf eitthvað jákvætt við hvert lífsins spor. Stundum var langt á milli okkar en alltaf var eins og við hefðum hist í gær. Við tókum bara upp samræðurnar þar sem frá var horfið og þú varst aldrei að flýta þér eða með hugann við annað en okkur.

Þú barst af í bakstri, jólaskreytingum, háskólanámi, í vinnunni og jafnvel í saumaklúbbnum okkar litla, þar sem þú gast alltaf rætt af einlægni við okkur hinar og gert það að verkum að stemningin í saumaklúbbnum var á 50 ára afmælisári okkar jafn krúttleg og í fyrsta saumaklúbbnum fyrir 41 ári.

Mikið er ég heppin að eiga þig fyrir æskuvinkonu og að hafa sungið hástöfum með þér. Svona söngur verður ekki endurleikinn. Ég þakka fyrir ævilangan vinskap, elsku Magga, og sendi fingurkoss yfir hafið til Gunnars, Guðrúnar Ýrar og fjölskyldu, Birtu Gyðu og Gunnhildar Sólar.

Heyrði ég í hljóði

hljóma í svefni og vöku

eitthvert undralag.

Leitaði að ljóði,

lærði að smíða stöku

og kveða kíminn brag.

Ekki jók það álit mitt né hróður.

Engum þótti kveðskapurinn góður.

Þú varst skjólið, móðir mín,

því mildin þín

vermdi þann veika gróður.

(Örn Arnarson.)

L. Ýr Sigurðardóttir

barnalæknir.

Ég vil gjarnan lítið ljóð

láta af hendi rakna.

Eftir kynni afargóð

ég alltaf mun þín sakna.

(Guðrún V. Gísladóttir)

Innilegar samúðarkveðjur til Gunna, Guðrúnar, Birtu og Gunnhildar, Ole, litlu ömmustelpnanna þinna, foreldra þinna og systkina.

Elsku Magga, takk fyrir allar góðu samverustundirnar, hláturinn og hjartahlýjuna þína.

Þín

Ásgerður (Ása).

Í dag kveðjum við yndislega, orkuríka vinkonu og hennar verðu sárt saknað. Við áttum margar hláturríkar stundir. Engri manneskju höfum við kynnst sem hefur gengið í gegnum jafnmargvíslega erfiðleika með þvílíku jafnaðargeði, sem Möggu. Það er ómetanlega lífsreynsla að hafa fengið að fylgja henni í gegnum eitthvað af þeim.

Magga var fjörug og kallaði ekki allt ömmu sína. Hún var sannur vinur vina sinna, passaði upp á sitt fólk og gat alltaf gefið af sér þrátt fyrir allskyns mótlæti. Magga var alltaf til staðar þegar á þurfti að halda.

Við vinkonurnar hittumst reglulega í okkar frábæra „hvítvínshittingi“ þar sem mikið var skrafað og hlegið, þessar stundir munu lifa í hjarta okkar um ókomna tíð.

Það var svo margt eftir sem við ætluðum að gera saman en það var henni líkt að koma okkur að óvörum og skilja okkur orðlausar eftir. Hún gerði þetta með reisn eins og allt annað

Elsku Magga, við hugsum til þín og minningarnar um þig munu ylja okkur um aldur og ævi.

Þínar vinkonur,

Ásdís, Sigrún og Þórdís.