Þorsteinn Friðrik Halldórsson tfh@mbl.is „Maður skilur þetta eiginlega ekki, áhuginn er ótrúlegur.

Þorsteinn Friðrik Halldórsson

tfh@mbl.is

„Maður skilur þetta eiginlega ekki, áhuginn er ótrúlegur. Við byrjuðum að gefa út í Frakklandi fyrir tæpu ári og seldum um 30 þúsund eintök af fyrstu bókinni sem var innbundin og sú bók verður gefin út í kilju í 60 þúsund eintökum til viðbótar,“ segir Ragnar Jónasson, rithöfundur og lögfræðingur.

Glæpasagan Snjóblinda sem ber íslenska titilinn Snjór á franska markaðnum hefur hlotið mjög góðar viðtökur og komst í tólfta sæti metsölulista yfir mest seldu kiljur Frakklands. Að auki verður bókin Náttblinda gefin út undir titlinum Mörk í 20 þúsund eintökum þannig að prentun á bókum Ragnars í Frakklandi mun nema um 110 þúsund eintökum þegar allt er tekið saman.

„Það hefur hvergi gengið eins vel og í Frakklandi. Þar er búið að kaupa réttinn á þremur bókum og ég held að þau vilji kaupa allar bækurnar.“

Seldar til fimmtán landa

Glæpasögur Ragnars hafa víðar átt góðu gengi að fagna. Í Bretlandi er búið að selja 80 þúsund eintök en samtals hafa bækurnar verið seldar til fimmtán landa, síðast til Króatíu og í næsta mánuði hefst útgáfa í Portúgal. Þá er einnig áætlað að gefa út nokkra titla í Japan og Þýskalandi á árinu. Í janúar var fyrsta bókin gefin út í Bandaríkjunum og fékk dóma í New York Times, Washington Post og fleiri blöðum og í kjölfarið var keyptur réttur á fjórum bókum til viðbótar. Ragnar segir að áhugi á Íslandi hafi smitast yfir í bókmenntir.

„Ég var í Lyon um helgina á hátíð sem er kölluð stærsta glæpasagnahátíð Evrópu og ég fann fyrir miklum áhuga á Íslandi. Þar var mikið spurt og ég áritaði bækur í sex klukkutíma samtals. Nánast annar hver maður sem kom og fékk áritun í bók var að fara til Íslands eða langaði að fara til Íslands,“ segir Ragnar. Spurður hvort útgáfa erlendis feli í sér breytingar á innihaldi bókanna segir Ragnar að séríslensk hugtök séu skýrð nánar til að gera textann aðengilegri útlendingum.

„Það sem við höfum gert með erlendu útgáfurnar er að við ritstýrum þeim upp á nýtt. Ekkert efnislega, en við skýrum betur atriði sem aðeins Íslendingar kannast við, t.d. staðhætti, veðráttu og fleira til að gera þær aðgengilegri. Það er búið að lauma inn skýringum hér og þar,“ segir Ragnar.

Um höfundinn
» Sautján ára byrjaði Ragnar að þýða skáldsögur Agöthu Christie og þýddi fjórtán bækur.
» Samhliða bókaskrifum starfar hann sem yfirlögfræðingur hjá fjármálafyrirtækinu GAMMA.
» Ragnar kom að stofnun Reykjavik international crime writing festival Iceland Noir.