[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Handbolti Sindri Sverrisson sindris@mbl.is Eftir jafna og æsispennandi deildarkeppni er komið að úrslitakeppni Olís-deildar karla í handbolta.

Handbolti

Sindri Sverrisson

sindris@mbl.is

Eftir jafna og æsispennandi deildarkeppni er komið að úrslitakeppni Olís-deildar karla í handbolta. Haukar geta orðið Íslandsmeistarar þriðja árið í röð en þeir hafa landað titlinum 10 sinnum frá árinu 2000 og ellefu sinnum alls.

Nýkrýndir deildarmeistarar FH urðu síðast Íslandsmeistarar árið 2011, þá í 16. sinn, en Valur á flesta Íslandsmeistaratitla eða 21. Fram hefur landað titlinum 10 sinnum, og ÍBV og Afturelding 1 sinni hvort, en Afturelding hefur leikið til úrslita við Hauka síðustu tvö ár. Grótta og Selfoss eru í leit að sínum fyrsta Íslandsmeistaratitli.

„Það er rosalega erfitt að spá í þetta. Þetta er rosalega jafnt. Ef ég ætti að setja pening á eitt lið þá myndi ég velja Hauka,“ segir Einar Jónsson, þjálfari Stjörnunnar, sem Morgunblaðið fékk til að spá í spilin fyrir úrslitakeppnina.

FH – Grótta, 2:0

Deildarmeistarar FH mæta Gróttu sem leikur nú í úrslitakeppninni annað árið í röð. FH-ingar töpuðu ekki leik á heimavelli eftir áramót og hafa nú heimavallarréttinn.

„FH-ingar eru búnir að vera hrikalega góðir, sérstaklega eftir áramót en samt líka stöðugir og flottir í vetur. Ég held að þeir klári þetta nú 2:0. Þeir fengu tvo nýja hornamenn fyrir tímabilið sem hafa skilað rosalega miklu fyrir þá og svo finnst mér Ágúst Elí [Björgvinsson] hafa stigið virkilega vel upp og sennilega verið besti markvörðurinn í vetur. Oftar en ekki er það liðið með bestu markvörsluna sem stendur uppi sem sigurvegari,“ segir Einar.

„Grótta á klárlega séns, en ég held að FH-ingar séu þannig stemmdir og búnir að spila það vel að það sé í raun þeirra að klúðra. Grótta hefur samt sýnt í vetur að liðið getur unnið hvaða andstæðing sem er. Hjá Gróttu stendur þetta hins vegar og fellur með mjög fáum leikmönnum, öfugt við FH,“ segir Einar.

ÍBV – Valur, ?

Einar segir hreinlega ekki hægt að spá fyrir um hvernig rimma ÍBV og Vals fari. Þar er á ferðinni afar athyglisvert einvígi og nýtt uppgjör þjálfaranna Arnars Péturssonar og Óskars Bjarna Óskarssonar, aðeins nokkrum dögum eftir að Arnar lét ljót orð falla í garð Óskars í leik liðanna á Hlíðarenda á þriðjudag.

„Þetta er rosaleg viðureign. Þjálfararnir kveiktu heldur betur í henni og það er bara gaman að því. Það getur allt gerst í þessu einvígi, og það eina sem ég er viss um er að hún fer 2:1,“ segir Einar.

„ÍBV er með besta byrjunarliðið í deildinni, það er alveg klárt. Þegar liðið þarf að fara að skipta inn á er það í meira basli, og þetta er það sem maður hefur mestar áhyggjur af fyrir þeirra hönd þegar svona stutt er á milli leikja,“ segir Einar.

„Valsmennirnir hafa meiri breidd og ég held að þetta Evrópuævintýri komi til með að hjálpa þeim í úrslitakeppninni. Þeir hafa nánast verið að spila þrjá leiki í viku eftir áramót og svoleiðis er þetta í úrslitakeppninni. Josip Grgic þarf að ná sér á strik og skila mörkum fyrir Val. Að sama skapi þarf Ýmir [Örn Gíslason] að vera heill því hann er að mínu mati mikilvægasti leikmaður liðsins – mikilvægur í vörn og sókn. Ef hann helst heill tel ég Val geta gert ótrúlegustu hluti í úrslitakeppninni,“ segir Einar.

Haukar – Fram, 2:0

Fram vann Hauka á Ásvöllum í vetur, 41:37, en tapaði báðum leikjum sínum við Íslandsmeistarana naumlega á heimavelli. Haukar hafa valdið nokkrum vonbrigðum í vetur:

„Ég á von á því að nú fari Haukar í gang. Þetta Fram-lið er reyndar algjört ólíkindatól og hefur spilað ótrúlega vel í vetur, mun betur en menn áttu von á, og á mikinn heiður skilinn. Ég held þó að Haukaliðið sé bæði betra og reynslumeira, og ætli sér alla leið í mótinu, á meðan Framarar gætu að einhverju leyti verið orðnir saddir og sáttir með sína frammistöðu. En þeir eru líka pressulausir og gætu komið með fleira óvænt í þetta Íslandsmót,“ segir Einar.

„Haukar þurfa að fá vörn og markvörslu í gang. Grétar [Ari Guðjónsson] og Goggi [Giedrius Morkunas] hafa báðir sýnt að þegar mikið er undir stíga þeir upp. Það lið sem verður með bestu markvörsluna í þessari úrslitakeppni verður Íslandsmeistari, og Haukar eiga mikið inni hvað markvörslu varðar. Ef þeir ná sér á strik, sem ég sé fyrir mér að gerist, verða Haukar Íslandsmeistarar,“ segir Einar.

Afturelding – Selfoss, 2:1

Afturelding var á toppi deildarinnar um áramót en endaði í 4. sæti eftir aðeins tvo sigra frá áramótum. Nýliðar Selfoss gerðu gott betur en að halda sér í deildinni:

„Gengi Aftureldingar er eiginlega lýsandi dæmi fyrir þessa deild. Hún var stórfurðuleg og alveg mögnuð. Ég held að Afturelding, líkt og Haukar, hafi að vissu leyti verið að bíða eftir úrslitakeppninni og komi sterk inn núna. Afturelding hefur verið að skora mikið í sínum leikjum en verið í einhverju basli með vörnina og fengið litla markvörslu. Ef markverðirnir ná sér á strik gæti ég trúað að Afturelding og Haukar mætist þriðja árið í röð í úrslitum,“ segir Einar.

„Selfyssingar eru með stemningslið, nýliðar sem hafa engu að tapa. Þeir gætu hæglega komið á óvart. Þeir eru ekkert ennþá í einhverju spennufalli yfir að hafa tryggt sæti sitt í deildinni, þeir eru komnir yfir það, og ég held að þetta verði hörkuskemmtilegt einvígi. Selfyssingar búa að því að hafa farið í einvígið við Fjölni í 1. deildinni í fyrra. Það var rosaleg rimma, og ekkert minni rimma en bíður þeirra núna. Selfoss býr að ágætri reynslu,“ segir Einar.