Forseti Íslands staðfesti í gær tillögur forsætisráðherra um breytt skipulag Stjórnarráðs Íslands, sem fela það í sér að innanríkisráðuneytinu verður skipt upp í annars vegar dómsmálaráðuneyti og hins vegar samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti.

Forseti Íslands staðfesti í gær tillögur forsætisráðherra um breytt skipulag Stjórnarráðs Íslands, sem fela það í sér að innanríkisráðuneytinu verður skipt upp í annars vegar dómsmálaráðuneyti og hins vegar samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti. Er þetta sama fyrirkomulag og var í áratugi. Með þessu fjölgar ráðuneytum stjórnarráðsins úr átta í níu frá og með 1. maí, en þá taka þessar breytingar formlega gildi.

Í gær voru einnig gerðar breytingar á verkaskiptingu milli forsætisráðuneytisins og fjármála- og efnahagsráðuneytisins í nokkrum málum viðvíkjandi Seðlabanka Íslands. Nú munu reglur um reikningsskil og ársreikning bankans, ákvarðanir um eiginfjármarkmið hans, ráðstöfun hagnaðar og fleiri mál verða á hendi fjármálaráðherra. Þá mun ráðuneyti hans sjá um skipan fulltrúa í sjóðsráð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.