Sigurbjörn Þorkelsson
Sigurbjörn Þorkelsson
Eftir Sigurbjörn Þorkelsson: "Fegurðin býr þar sem fyrirgefning, réttlæti og friður faðmast."

Hann var hæddur af heiminum og yfirgefinn af sínum eigin liðsmönnum. Og enn í dag hæðast menn að honum og yfirgefa. Samt lifir hann, á fleiri vini og er máttugri sem aldrei fyrr.

Endir lífsins á krossinum forðum er uppspretta vonar og kærleika, mikils ávaxtar og eilífs lífs.

Miðpunktur sögunnar

Jesús Kristur er miðpunktur sögunnar, útgangspunktur lífsins, markmið þess og kjarni. Hann er stjarnan sem birtir okkur kærleika Guðs. Stjarnan sem vísar okkur veginn að undrinu himneska. Veginn til sannleika, friðar og réttlætis.

Jesús Kristur er uppspretta lífsins. Fullkomnun kærleika Guðs. Næring í erli dagsins. Hann er lífið sjálft. Boðberi friðar og fyrirgefningar. Himnaríkið sem við flest leitum að og mörg þráum innst inni. Honum sé dýrð um aldir alda og að eilífu.

Jesús Kristur er orð Guðs og andlit. Hinn eini sanni vegvísir heim til lífsins. Hann er brauð lífsins. Ljós heimsins. Og dyrnar að hinni eilífu dýrð.

Að fylgja Kristi kostar hugrekki. Hann er hinn eftirsóknarverði fjársjóður. Hin dýrmæta perla sem vert er að halda í. Til þess hreinlega að komast af og lífi halda um eilífð.

Þegar mér finnst ég vera lítill og smár, nánast einskis virði, líður illa og er umkomulaus, þá finnst mér ekkert betra en fá að horfa í augun á Jesú. Eftir því sem ég horfi lengur og dýpra finn ég að ég er elskaður af ómótstæðilegri ást. Þá fyrst finn ég almennilega fyrir því hversu dýrmætur ég raunverulega er. Elskaður af höfundi lífsins, frelsara þess og fullkomnara. Elskaður hreinlega út af lífinu. Elskaður af honum sem er lífið sjálft.

Hann lýsi okkur leiðina heim

Njótum þess því að fara afsíðis með honum og koma kyrrð á hugann til þess að fylla á tankinn svo við getum látið um okkur muna til góðra verka sem hann hefur kallað okkur til.

Leyfum honum að tendra ljósið sitt eilífa í hjörtum okkar svo það fái logað þar um framtíð bjarta og lýsi okkur veginn svo við verðum til heilla í umhverfinu á leiðinni heim.

Leyfum kærleikans Guði að fullkomna mátt sinn í gegnum okkar mannlega veikleika svo við verðum sá farvegur kærleika hans sem okkur er ætlað að vera. Óskiljanlegur hluti af eilífri áætlun hans, markmiðum og takmarki.

Því að Jesús Kristur er sigurvegari dauðans og lífsins. Hann er okkar áhrifaríkasti áheyrnarfulltrúi, talsmaður, bróðir og sanni vinur í þeim þrengingum sem heimurinn hefur upp á að bjóða.

Fingrafar Guðs

Fegurðin býr þar sem fyrirgefning, réttlæti og friður faðmast. Fegurðin er fingrafar Guðs í þessum heimi, og þú þar á meðal.

Varðveittu umfram allt hjarta þitt. Því þaðan renna lækir lifandi vatns. Andans vatn sem á uppsprettu sína í hinni tæru og fullkomnu lind lífsins.

Með kærleiks- og friðarkveðju og í von um góða tíð á grænum grundum. Lifum og njótum í þakklæti.

Lifi lífið!

Höfundur er ljóðskáld og rithöfundur og aðdáandi lífsins.