Einar Sigurðsson fæddist á Djúpavogi 8.4. 1897. Foreldrar hans voru Guðrún Ögmundsdóttir og Sigurður Einarsson, smiður í Odda á Fáskrúðsfirði.

Einar Sigurðsson fæddist á Djúpavogi 8.4. 1897. Foreldrar hans voru Guðrún Ögmundsdóttir og Sigurður Einarsson, smiður í Odda á Fáskrúðsfirði.

Fyrri kona Einars var Þórhildur Þorsteinsdóttir frá Löndum, sem lést 1940 en þau eignuðust sex börn og komust þrjú þeirra upp, Guðrún, Sigurður og Guðlaugur, en seinni kona Einars var Unnur Pétursdóttir frá Rannveigarstöðum í Álftafirði.

Einar hélt til Reykjavíkur um tvítugt, lærði húsasmíði í Trésmiðjunni Völundi, lauk iðnskólanámi og varð meistari í húsasmíði. Síðar lærði hann skipateikningar í Reykjavík og hlaut meistararéttindi í skipasmíði.

Árið 1921 stofnaði Einar Trésmíðaverksmiðju Austurlands á Fáskrúðsfirði, í daglegu tali nefnd Oddaverkstæðið, sem stóð fyrir umfangsmiklum byggingaframkvæmdum og trésmíðavinnu. Þar var smíðaður fjöldi báta, árabáta, vélbáta af mörgum stærðum og gerðum sem og stórir þilfarsbátar. Þar starfaði fjöldi manns þegar unnið var að stórum verkefnum en meðfram bátasmíðinni vann Einar við húsasmíði og gerð hafnarmannvirkja á Fáskrúðsfirði og í nálægum fjörðum. Hann reisti fjölda íbúðarhúsa og annarra bygginga fyrir sveitarfélagið, félagsheimili, sundlaugar, verksmiðjuhús og fleira.

Einar hafði umsjón með niðurrifi Franska spítalans á Fáskrúðsfirði og endurbyggingu hans sem fjölbýlishúss og barnaskóla í Hafnarnesi og sá um endurbætur á grafreit frönsku sjómannanna á Fáskrúðsfirði.

Einar var velgjörðarmaður og máttarstólpi síns byggðarlags, varð heiðursborgari Búðakauptúns 1977 og var sæmdur riddarakrossi fálkaorðunnar 1972.

Árið 1997 reisti Verkalýðs- og sjómannafélag Fáskrúðsfjarðar honum minnisvarða.

Einar Sigurðsson lést 3.2. 1984.

Einars verður minnst á frönskum dögum 2017 í Félagsheimilinu Skrúð laugardaginn 29.7. nk. kl. 14-17.