Tölur Vegagerðarinnar sýna þá miklu aukningu sem orðið hefur á umferð um þjóðgarðinn síðustu ár. Frá árinu 2012 til loka árs 2016 hefur tala bíla sem óku daglega um þjóðgarðinn á Þingvöllum að vetrarlagi rúmlega þrefaldast.

Tölur Vegagerðarinnar sýna þá miklu aukningu sem orðið hefur á umferð um þjóðgarðinn síðustu ár. Frá árinu 2012 til loka árs 2016 hefur tala bíla sem óku daglega um þjóðgarðinn á Þingvöllum að vetrarlagi rúmlega þrefaldast. Á sama tíma hefur bílaumferð á sumrin aukist um 66%. Þetta má lesa úr talningum sem Vegagerðin hefur gert á Þingvallavegi við Gjábakka nálægt Hrafnagjá.

Árið 2012 fóru að jafnaði 262 bílar daglega um veginn þarna að vetrarlagi en árið 2016 hafði þeim fjölgað í 861 bíl eða um 230%. Sumarið 2012 óku að jafnaði 1424 bílar um veginn þarna daglega en fjórum árum síðar, sumarið 2016, óku 2362 bílar daglega um garðinn sem er um 66% aukning. Ef tekið er árlegt meðaltal bíla sem óku um þjóðgarðinn allt árið á þessum árum voru þeir að jafnaði 760 á dag árið 2012 en hafði fjölgað í 1475 bíla á dag árið 2016 sem er 94% aukning.

Vaxandi líkur á óhöppum

Öryggis- og neyðaratvikum í þjóðgarðinum hefur fjölgað á undanförnum árum með vaxandi straumi ferðamanna. Með fleiri ferðamönnum fjölgar einnig þeim sem fara ekki að settum reglum og líkur á óhöppum aukast. Samkvæmt upplýsingum frá Neyðarlínu/112 fjölgaði skráðum atvikum innan þjóðgarðsins á Þingvöllum frá 2013-2016 úr 10 í 46.

Á undanförnum árum hefur vegum til Þingvalla ítrekað verið lokað vegna óveðurs og ófærðar. Þá breytast gestastofur þjóðgarðsins í biðstöðvar ferðamanna sem komast ekki leiðar sinnar. Við slíkar aðstæður lengja landverðir iðulega vaktir sínar til að aðstoða ferðamenn og miðla upplýsingum. Á óveðursdögum hafa allt að 150 manns leitað skjóls í gestastofum þjóðgarðsins til að bíða af sér veður.