Ragnar Guðlaugsson fæddist á Guðnastöðum í Austur-Landeyjum 5. maí 1934. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Suðurlands 13. mars 2017.

Foreldrar Ragnars voru hjónin Guðlaugur Magnússon frá Eyvindarholti, f. 18. nóvember 1893, d. 15. mars 1970, og kona hans Júlía Jónasdóttir frá Hólmahjáleigu, f. 28. júlí 1899, d. 27. maí 1974. Ragnar var næstyngstur af sex systkinum. Systkini: Ragnheiður f. 23. apríl 1927, d. 25. júní sama ár; Jónas, f. 21. apríl 1929, d. 30. júlí 2009, kona hans er Dóróthea Stefánsdóttir. Sigríður f. 23. janúar 1931, d. 4. júlí 2007, maður hennar var Ingólfur Majasson. Ólafur, f. 7. febrúar 1933, d. 19. október 2000, sambýliskona hans er Guðrún Vilhjálmsdóttir. Ingibjörg Jóna, f. 27. mars 1940. Maður hennar var Sturla Einarsson, þau skildu. Ragnar ólst upp á Guðnastöðum og stundaði þar búskap alla sína starfsævi, fyrst ásamt foreldrum sínum og seinna með eiginkonu sinni Margriti Strupler, f. 24. júní 1947 í Weinfelden í Sviss. Faðir hennar er Walter Strupler, fyrrum bóndi í Sviss, f. 1913. Móðir Margritar var Heidi Strupler-Burkhart f. 1921 d. 2002. Ragnar og Margrit gengu í hjónaband 10. júní 1971. Börn þeirra eru: 1) Dagný, f. 11. apríl 1972, gift Ragnari Guðmundsyni, f. 21. desember 1971. Þeirra börn eru: Smári, f. 26. september 1998; Lilja, f. 24. ágúst 2000; Íris, f. 28. maí 2002, og Pálmi, f. 25. mars 2006, fyrir á Ragnar soninn Guðmund Helga, f. 3. september 1991. 2) Bryndís, f. 15. júlí 1974, gift Arnþóri Ragnarssyni, f. 31. janúar 1968. Synir þeirra eru Reynir, f. 7. ágúst 2005; Ragnar, f. 3. maí 2007, og Róbert, f. 15. apríl 2010. 3) Guðni, f. 24. janúar 1977, kvæntur Arnheiði Dögg Einarsdóttur. Synir þeirra eru Arnþór Einar, f. 27. desember 2001; Þorsteinn Ragnar, f. 23. febrúar 2003, og Ísak, f. 25. nóvember 2005. 4) Magnús, f. 24. ágúst 1982, kvæntur Tinnu Erlingsdóttur, f. 20. maí 1980. Börn þeirra eru Óðinn, f. 18. maí 2006; Freyja, f. 9. ágúst 2009, og Frosti, f. 5. maí 2012. 5) Matthías, f. 27. ágúst 1985. Unnusta hans er Svanhildur Guðmundsdóttir, f. 20. ágúst 1993, og dóttir hennar er Valgerður Sara, f. 24. janúar 2016.

Ragnar bjó á Guðnastöðum fram til ársins 2005 er þau hjónin fluttu að Merkilandi 6 á Selfossi. Ragnar var natinn bóndi og sinnti fóðrun, ræktun búfjár og lands, byggingum og viðhaldi af stakri prýði og skynsemi. Hann var áhugasamur um framfarir í landbúnaði og tækni og var einn af frumkvöðlum í kornrækt á Íslandi. Ragnar sinnti ýmsum trúnaðarstörfum fyrir félagasamtök í sveit sinni, s.s. búnaðarfélag, nautgriparæktarfélag og ungmennafélag. Hann sat einnig í skurðanefnd, var í stjórn Ræktunarfélags A-Landeyja og vann við vatnsveitu sveitarinnar. Á sínum yngri árum var Ragnar einnig nokkrar vertíðir í Vestmannaeyjum. Eftir að þau hjón fluttu á Selfoss undi Ragnar sér einnig vel, tók þar þátt í félagsstarfi eldri borgara og spilaði reglulega brids og snóker meðan heilsan leyfði.

Útför Ragnars hefur farið fram í kyrrþey að ósk hins látna.

Þá er hann Ragnar frændi minn og föðurbróðir farinn yfir móðuna miklu. Það sem einkenndi systkinahópinn hans Ragnars var hvað þau Guðnastaðasystkinin héldu góðu sambandi sín á milli alla tíð og voru samheldin og hjálpsöm hvert öðru. Sem bóndi á Guðnastöðum var Ragnar fremstur meðal jafningja.

Hann var duglegur og útsjónarsamur og handlaginn á bæði járn og tré. Ragnar og Margrét kona hans höfðu trú á því Guðnastaðir væru betri til búsetu með uppbyggingu skógarskjólbelta og tóku þau þátt í þýðingarmiklum tilraunaverkefnum með uppbyggingu slíkra skjólbelta.

Ég varð þeirrar gæfu aðnjótandi að vera sem unglingur í sveit eitt sumar á Guðnastöðum. Mér er sérstaklega minnisstætt að þetta sumarið gekk heyskapurinn brösuglega eingöngu út af því að veðurspár í útvarpinu rættust mjög illa. Þegar það var spáð sól, þá kom rigning og öfugt, þannig gekk þetta í langan tíma. Þá fauk loks í Ragnar og hann sagði: „Nú loka ég á veðurstofuna og fer og heimsæki Guðmund Jónasson frænda okkar á Núpi í Fljótshlíð.“

Við Ragnar fórum og sóttum heim Guðmund frænda okkar á Núpi. Guðmundur var þekktur fyrir það að hafa verið síðasti formaðurinn sem reri frá Landeyjasandi og þótti hann með afbrigðum veðurglöggur. Við gengum út á tún og Guðmundur frændi spáði í skýin og náttúruna og kom með langtíma veðurspá fyrir næstu 10 daga. „Eftir morgundaginn skaltu byrja að slá allt sem þú getur, Ragnar,“ sagði Guðmundur frændi. Það kom á daginn að veðurspá frænda rættist og heyskapurinn kláraðist á stuttum tíma.

Hver einasta stund yfir sumarið var vel nýtt. Ef ekki var unnið í heyskap var dyttað að útihúsum, vélum, girðingum eða mokað út úr fjárhúsum. Ég minnist þess að heyskapurinn var mikið púl, það þurfti að handtína baggana upp á kerrur og inn í hlöður og oft unnið langt fram á nætur þegar rigning var að bresta á. Það var ekki alltaf tekið út með sældinni að vera bóndi. Búið á Guðnastöðum var eitt af þeim best reknu á landinu og landbúnaðarskólarnir kepptust við að koma nemendum sínum í læri um góða búskaparhætti hjá þeim Ragnari og Margréti. Margar góðar minningar á ég með Ragnari í ferðum niður á Landeyjasand. Þar var mjög spennandi að fylgjast með hvernig heilu skipsflökin hurfu með árunum ofan í sandinn.

Þegar Ragnar varð sjötugur fékk hann frá börnum sínum í afmælisgjöf veiðiferð með sjóstangabát. Ragnar bauð mér að koma með og þar áttum við frændurnir góðan og ógleymanlegan dag saman. Við bræður gáfum honum síðan sjóferð um sundin í Reykjavík þegar hann varð áttræður og var þá farið út í Viðey og grillað þar. Þegar ég heimsótti Ragnar stuttu fyrir andlátið minntist hann þessara ljúfu minninga sem hann átti úr þessum tveimur sjóferðum.

Þegar ég hugsa til Ragnars frænda míns þá kemur upp í huga mér vísan góða úr Hávamálum,

Deyr fé,

deyja frændur,

deyr sjálfur ið sama;

en orðstír

deyr aldregi,

hveim er sér góðan getur.

Ég votta Margréti og öðrum aðstandendum mína samúð.

Stefán Jónasson.