Nú eru innan við 100 dagar þar til að Evrópumót kvenna í knattspyrnu hefst í Hollandi. Heimakonur mæta Noregi í fyrsta leik 16. júlí en við Íslendingar horfum frekar til 18. júlí þegar Ísland mætir hinu gríðarsterka liði Frakklands.
Nú eru innan við 100 dagar þar til að Evrópumót kvenna í knattspyrnu hefst í Hollandi. Heimakonur mæta Noregi í fyrsta leik 16. júlí en við Íslendingar horfum frekar til 18. júlí þegar Ísland mætir hinu gríðarsterka liði Frakklands.

Það færir okkur kannski enn nær mótinu að næsti leikur íslenska liðsins er einmitt gegn sjálfum gestgjöfunum, í Hollandi á þriðjudagskvöld. Leikið verður í Doetinchem, á sama stað og Ísland mætir Sviss í öðrum leik sínum á EM. Leikið verður á heimavelli De Graafschap sem tekur 12.600 manns í sæti.

Okkar konur ferðuðust til Hollands í gær og munu dvelja á sama hóteli og á Evrópumótinu, Gullna túlípananum (hvað annað?) sem er í bænum Ermelo. Það er örugglega gott að fá aðeins að kynnast aðstæðum þar núna, og þessi heimsókn gerir sjálfsagt ekkert annað en að kveikja meira hungur í þeim sem eru í hörðustu baráttunni um sæti í 23 manna EM-hópnum.

Það var auðvelt að samgleðjast Berglindi Björgu Þorvaldsdóttur eftir að hún skoraði sitt fyrsta landsliðsmark, í sigrinum á Slóvakíu í fyrradag. Hún felldi tár enda búin að bíða eftir að stíflan brysti. Vonandi er þetta það sem koma skal því það búa markatöfrar í þessari Eyjamey sem yrði gríðarlega dýrmætt að fá að njóta á EM.

Skipulag undirbúnings íslenska liðsins fyrir EM virðist hafa verið mjög gott. Liðið hefur þegar leikið átta leiki frá því að undankeppni EM lauk síðasta haust. Til samanburðar hefur Austurríki, einn andstæðinga Íslands á EM, leikið fimm leiki og Sviss sex.