Víkverji var löngu kominn í vorskapið áður en það kólnaði á ný og fór að snjóa. Það voru vonbrigði en fólk ætti ekki að láta þetta koma sér á óvart, það er nú einu sinni orð yfir þetta í málinu, páskahret.

Víkverji var löngu kominn í vorskapið áður en það kólnaði á ný og fór að snjóa. Það voru vonbrigði en fólk ætti ekki að láta þetta koma sér á óvart, það er nú einu sinni orð yfir þetta í málinu, páskahret.

Snjórinn er nú bráðnaður, að minnsta kosti á höfuðborgarsvæðinu, og það er kominn tími fyrir vorverkin í garðinum. Víkverji er einstaklega þakklátur fyrir Facebook-hópinn Ræktaðu garðinn þinn en þar er hægt að sækja sér mikinn fróðleik. Sérfræðingar deila visku sinni og viska almennings skilar sér líka vel þar inn.

Þar er hægt að fá ýmiss konar ráð en hvað garðinn varðar dugar ekkert annað en að klæða sig í garðyrkjuhanskana, grípa nokkur tól og fara út að vinna. Þetta gerist ekki af sjálfu sér. Sumum líður hvergi betur en í garðinum að reyta arfa og klippa. Til viðbótar er það vísindalega sannað að veran í moldinni hafi góð áhrif. Ein ástæða þess að garðvinnan lætur fólki líða vel eru örverur sem finnast í jarðveginum. Mycobacterium vaccae hafa svipuð áhrif á heilann og prozac. Þessar örverur örva serótónínframleiðslu sem hjálpar fólki að slaka á og lætur því líða betur.

Garðræktarþerapía er þekkt meðferð sem hefur til dæmis verið notuð á stríðshrjáða hermenn. Hún er notuð í endurhæfingu og einnig eru til sérstaklega ilmríkir garðar fyrir blinda. Hluti af því að vera úti í garði um hásumar er allur ilmurinn af plöntunum, sem gýs upp ekki síst eftir góðan gróðraskúr.

Páskarnir eru ekki búnir en það má alltaf vona það besta. Þeir eru seint þetta árið svo kannski er páskahretið búið. En þá er bara eftir kóngsbænadagshret og uppstigningardagshret þannig að þetta hlýtur bara alveg að fara að klárast. Daginn er að minnsta kosti að lengja enda komið fram yfir vorjafndægur. Gleðilegt vor!