Grágás Árnastofnun fletti upp 34. kafla um víg sem sést neðarlega til hægri.
Grágás Árnastofnun fletti upp 34. kafla um víg sem sést neðarlega til hægri. — Ljósmynd/Stofnun Árna Magnússonar
Magnús Heimir Jónasson mhj@mbl.is Hæstiréttur sýknaði Árna Ísaksson og bardagafélagið Mjölni af skaðabótakröfu Lárusar Óskarssonar síðastliðinn fimmtudag.

Magnús Heimir Jónasson

mhj@mbl.is

Hæstiréttur sýknaði Árna Ísaksson og bardagafélagið Mjölni af skaðabótakröfu Lárusar Óskarssonar síðastliðinn fimmtudag. Hæstiréttur sneri við dómi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem sagði Árna og Mjölni bera óskipta skaðabótaábyrgð á líkamstjóni Lárusar. Atvikið átti sér stað í steggjun Lárusar og sem hluti af skemmtidagskránni var Lárus settur í bardagabúr með Árna, sem er reyndur bardagamaður. Árni felldi Lárus, sem slasaðist við fallið.

Athygli vakti að Hæstiréttur vitnaði í konungsbók Grágásar, Vígslóða, 34. kafla, og 13. kafla Mannhelgisbálks Jónsbókar máli sínu til stuðnings. Báðir lagabálkar eru frá miðri 13. öld. „Í íslenskum rétti hafa lengi gilt reglur um áhættutöku en þar falla undir tilvik sem tjónþola er ljós sú áhætta sem hann tekur en hann leggur eigi síður sig eða hagsmuni sína í hættu,“ segir í dómi Hæstaréttar. Vitnar dómurinn næst í konungsbók Grágásar. „Hvar þess er maður gengi til fangs að vilja sínum eða leiks, og væri hann eigi lengur að en hann vildi, þá skyldi hann sjálfur sig ábyrgjast ef hinn vildi honum eigi mein gera, nema hann fengi örkuml eða bana, og mest þá sem engi leikur væri.“

Textinn í dómi Hæstaréttar er nútímaleg uppfærsla á upphaflega texta Grágásar sem segir „skal hann sjálfr sik ábyrgjast ef hinn vill honum eigi mein gera“. Hæstiréttur vitnar einnig í 13. kafla Mannhelgisbálks Jónsbókar. „Svipuð regla sem enn er talin gildandi til laga hér og segir þar að gangi maður til leiks, fangs eða skinndráttar að vilja sínum, þá ábyrgist hann sig sjálfur að öllu, þó að hann fá mein eða skaða af,“ segir í dómnum. Jónsbók tók við sem meginundirstaða íslensks réttar af Járnsíðu árið 1281. Það eru því 736 ár síðan lögin tóku gildi sem Hæstiréttur beitti í vikunni.

Grágás hjá Árnastofnun
» Tók við handritinu 16. mars 1979.
» Handritið er skrifað á skinn og tímasett um 1250.
» Á bandi bókarinnar er skjaldarmerki Danmerkur og fangamark Kristjáns konungs VII.
» Vígslóði er sá kafli sem fjallar um víg.