Stórtap Robin Hedström, lengst til vinstri, gaf Íslandi vonarglætu í leiknum gegn Belgíu í gær og er hér fagnað en niðurstaðan var afhroð íslenska liðsins.
Stórtap Robin Hedström, lengst til vinstri, gaf Íslandi vonarglætu í leiknum gegn Belgíu í gær og er hér fagnað en niðurstaðan var afhroð íslenska liðsins. — Ljósmynd/Sorin Pana
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í Galati Andri Yrkill Valsson yrkill@mbl.is Eftir að hafa unnið einn fræknasta sigur síðustu ára var hreinlega hörmung að horfa til íslenska karlalandsliðsins í íshokkí tæpum sólarhring síðar í A-riðli 2. deildar HM í íshokkí í Galati í Rúmeníu í gær.

Í Galati

Andri Yrkill Valsson

yrkill@mbl.is

Eftir að hafa unnið einn fræknasta sigur síðustu ára var hreinlega hörmung að horfa til íslenska karlalandsliðsins í íshokkí tæpum sólarhring síðar í A-riðli 2. deildar HM í íshokkí í Galati í Rúmeníu í gær. Fyrsti sigurinn í sögunni gegn heimamönnum á fimmtudagskvöld var stórkostlegur, en frammistaðan sem fylgdi gegn Belgíu í gær var álíka skelfileg og hin var góð. Lokatölurnar gefa það líka glöggt til kynna, en Ísland tapaði leiknum illa, 9:3.

Um tíma var nánast eins og hauslausar hænur hefðu reimað á sig skautana og klæðst íslenska landsliðsbúningnum. Skipulag virtist vera framandi orð og það var engin tilviljun að liðið var 3:0 undir eftir aðeins stundarfjórðung. Staðan var því snemma orðin slæm, en það sem var virkilega óskiljanlegt var hvað gerðist í framhaldinu.

Robin Hedström hafði náð að koma Íslandi á blað skömmu fyrir lok fyrsta leikhluta, og þeir Andri Már Mikaelsson og Pétur Maack sáu til þess með 34 sekúndna millibili í þeim öðrum að Ísland jafnaði metin í 3:3. Maður hefði ætlað að það gæfi liðinu fítonskraft eftir skelfinguna framan af leik, en þvert á móti sýndi liðið að lengi getur vont versnað. Og þótti nóg um nú þegar.

Allt klikkaði sem gat klikkað

Eins og lokatölurnar segja fékk liðið sex mörk á sig eftir að hafa þó náð að jafna, sem var vissulega mjög sterkt miðað við hvað holan var orðin djúp. En frammistaðan í kjölfarið var með ólíkindum. Þess má geta að í tveimur af fyrstu þremur leikjum sínum í mótinu fékk Belgía á sig 9 mörk, en fátt benti til þess að Belgarnir hefðu það í sér sjálfir að skora svo mörg í sama leiknum. Það er hins vegar engin tilviljun miðað við frammistöðu íslenska liðsins.

Það er ekki skrítið að Íslendingarnir hafi ekki vitað sitt rjúkandi ráð þegar gengið var á þá eftir svörum í leikslok. Það er ef til vill skiljanlegt, því erfitt er að útskýra hvað raunverulega gerðist. Öll minnstu smáatriði sem hefðu getað klikkað klikkuðu, en það má bara vona að nú sé búið að taka það allt út.

Þótt menn hafi ekki haft svörin við frammistöðunni lögðust strákarnir á eitt í gærkvöld að setja þennan leik til hliðar og einbeita sér að því að klára mótið með sæmd. Það er nákvæmlega það sem góð liðsheild gerir, og Ísland hefur sýnt það hingað til í þessu móti að liðsheildin er sterkasta vopnið.

Stórfurðulegt að þjálfa þetta lið

„Það getur verið stórfurðulegt að þjálfa þetta lið. Við nánast yfirspiluðum það lið sem á að vera best í riðlinum en nú gerum við svo mörg einföld mistök. Í hreinskilni er þetta frekar spurning um hugarfar heldur en mistökin sem við gerðum,“ sagði landsliðsþjálfarinn Magnus Blårand þegar Morgunblaðið ræddi við hann eftir leik.

Þrátt fyrir að vera hundóánægður með frammistöðuna áréttaði hann þó eitt, að það er Serbía sem mun þurfa að borga fyrir þessa frammistöðu í síðasta leiknum á morgun. Þetta var óhapp og menn munu vilja koma dýrvitlausir til leiks og sanna það. Því þetta er frammistaða sem hver og einn mun vilja gleyma sem allra, allra fyrst.