Vesturbugt Kopar, náttúrusteinn, sink, gatað ál, viður og keramikflísar eru dæmi um efni sem notuð verða í klæðningar húsanna. Matsnefndin segir efnisval vera í háum gæðaflokki. Hér er horft yfir svæðið frá Sjóminjasafninu.
Vesturbugt Kopar, náttúrusteinn, sink, gatað ál, viður og keramikflísar eru dæmi um efni sem notuð verða í klæðningar húsanna. Matsnefndin segir efnisval vera í háum gæðaflokki. Hér er horft yfir svæðið frá Sjóminjasafninu.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigtryggur Sigtryggsson sisi@mbl.is Á fundi sínum á fimmtudag samþykkti borgarráð tilboð VSÓ Ráðgjafar ehf., fyrir hönd Vesturbugtar ehf.

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Á fundi sínum á fimmtudag samþykkti borgarráð tilboð VSÓ Ráðgjafar ehf., fyrir hönd Vesturbugtar ehf., í kaup á byggingarrétti og sölu til Reykjavíkurborgar á 74 íbúðum og 170 bílastæðum í bílakjöllurum á tveimur lóðum í Vesturbugt, Hlésgötu 3 og 4. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina sátu hjá við afgreiðslu málsins. Vesturbugt er svæðið milli Slippsins og Grandagarðs, þar sem áður voru athafnasvæði Daníelsslipps og Stálsmiðjunnar.

Fram kemur í greinargerð starfshóps um nýju Reykjavíkurhúsin í Vesturbugt að undanfarin misseri hafi staðið yfir undirbúningur á uppbyggingu í Vesturbugt. Borgarstjóri skipaði starfshóp 15. júní 2015 til að stýra endurskoðun deiliskipulags fyrir Vesturbugt, hafa samráð við aðila sem gefinn verði kostur á endurkaupum og sjá um gerð útboðsgagna og útboð.

Byggingamagn 18.400 fm

Með auglýsingu 23. apríl 2016 auglýsti Reykjavíkurborg eftir aðilum sem hefðu áhuga á að taka þátt í forvali fyrir samkeppnisviðræður um að fá tveimur lóðum í Vesturbugt úthlutað til að byggja þar um 176 íbúðir og atvinnuhúsnæði auk bílakjallara. Reykjavíkurborg áskildi sér rétt til að kaupa af tilboðsgjafanum 74 íbúðir og 170 bílastæði.

Byggingamagn ofanjarðar verður 18.400 fermetrar, þar af 1.700 fermetra atvinnusvæði. Bílageymslur neðanjarðar verða 10.200 fermetrar.

Fjórir hópar tilkynntu þátttöku í forvalinu. Að lokum stóðu eftir tveir hópar. Annan hópinn leiddi JÁVERK ehf. og hinn VSÓ Ráðgjöf ehf. Hóparnir skiluðu endanlegu tilboði 20. desember sl. Viðræðu- og matsnefnd lagði mat á framlagðar hönnunartillögur. Niðurstaðan var að tillaga VSÓ Ráðgjafar ehf . hlaut 36,4 stig, eða 91% af mögulegu vægi, og tillaga JÁVERK ehf. hlaut 30 stig, eða 75% af mögulegu vægi.

Að vinningstillögunni standa VSÓ Ráðgjafar ehf., BAB Capital ehf., PK Arkitektar ehf., Basalt arkitektar ehf., Trípólí arkitektar sf. og Krads arkitektar ehf. Tilboðsgjafi hefur nú stofnað sérstakt félag, Vesturbugt ehf., sem annast mun uppbyggingu svæðisins í samstarfi við Reykjavíkurborg.

Samkvæmt fyrirliggjandi drögum að samningi skulu framkvæmdir hefjast eigi síðar en 15 mánuðum eftir undirskrift samnings og skal þeim lokið eigi síðar en 60 mánuðum eftir undirskrift samnings.

Gert er ráð fyrir að framangreindar 74 íbúðir verði framseldar til Félagsbústaða hf., Félagsstofnunar stúdenta, félaga sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni eða húsnæðissjálfseignarstofnana.

Fram kemur að hugmyndafræði Reykjavíkurhúsanna byggi á þeirri grunnhugmynd að tryggja félagslega blöndun íbúa í hverfum borgarinnar í samræmi við markmið húsnæðisstefnu og Aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030.