[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Það er húmor í okkar gömlu skræðum. Um 1190 bjó í Árskógi presturinn Helgi Halldórsson með konu sinni. Á bænum var ekkja sem þar hafði búið með Brandi manni sínum sem hafði verið „veginn í kirkjudyrum“.

Það er húmor í okkar gömlu skræðum. Um 1190 bjó í Árskógi presturinn Helgi Halldórsson með konu sinni. Á bænum var ekkja sem þar hafði búið með Brandi manni sínum sem hafði verið „veginn í kirkjudyrum“. Helgi prestur átti tengdamóðurina Þorgerði á nágrannabænum Brattavelli. Sú hafði „hjalað við“ einhleypinginn Ingimund sem vann hjá henni við stofusmíði. En hann lét ekki nægja að hjala við Þorgerði því hann fór að elska Ásgerði á Kálfskinni. Þorgerður „stökk“ þá ofan í Árskóg til tengdasonarins, Helga prests. Þangað kom Ingimundur (eftir að hafa heimsótt Ásgerði á Kálfskinni) og vildi hafa Þorgerði burt með sér. En Helgi prestur sagði að Þorgerður tengdamóðir hans réði sér sjálf. Um nóttina gekk Ingimundur að hvílu Helga og „hjó í höfuð honum með öxi og vaknaði hann ekki hingað í heim svo að menn vissu“ ( Guðmundar saga dýra ).

Í Vöðu-Brands þætti (sem er hluti Ljósvetninga sögu ) er sýnt hvernig hinn ungi og baldni Vöðu-Brandur verður góður þegn af þeirri einu ástæðu að vitrir menn sýna honum þolinmæði og traust. [Innskot: Tilvalinn texti fyrir 10. bekkinga; ég ætla að búa hann til kennslu og bjóða Skólavefnum á vordögum (skolavefurinn.is).] Í Vöðu-Brands þætti er líka mikilvægt innlegg í áfengisumræðu þar sem greint er frá Noregsför Brands. Hann hittir höfðingjann og illmennið Hárek sem vill þvinga hann til að drekka til móts við sig af miklu horni, en áður var hann búinn að „spotta hann og hæða á marga vegu“. Vöðu-Brandur „kvaðst ekki drekka mundu“: „Hefi ég vit eigi of mikið þótt ég drekki það eigi frá mér sem ég hefi áður. Munt þú og þurfa vit þitt allt að því er mér líst á þig.“ Hárekur laust þá horninu í höfuð Vöðu-Brandi svo að drykkurinn slóst niður á hann. Brandur lét sem ekkert væri. En morguninn eftir er menn voru komnir í sæti sín gekk hann fyrir Hárek og keyrði öxi í höfuð honum.

Mér finnst stundum vanta gleðina (og kannski teskeið af húmor) í umræðu um tungumálið. Ég skil t.d. ekki húmorslaust svartagallsraulið í sumum fræðimönnum sem halda að íslenskan sé á hraðferð til andskotans.

Auðvitað lifir íslenskan. Og auðvitað halda börnin í Hafnarfirði áfram að tala íslensku. Það eina sem við þurfum að gera er að tala sjálf íslensku við börnin og hvert við annað. Og förum að dæmi leikskólakennaranna sem lesa sögur fyrir börnin okkar á hverjum degi og hafa þannig undraverð áhrif á málfar þeirra og orðaforða.

Annað að lokum: Margt er sérkennilegt við íslensk bæjarnöfn. Halldór Blöndal benti mér á að Austurgarður í Kelduhverfi væri eintöluorð – nema í þágufalli . Kona ein fæddist í Austurgörðum (ft.) í Kelduhverfi – en fluttist ung með fjölskyldu sinni í Laufás, nýbýli í landi Austurgarðs (et.), eins og fram kemur í æviágripi hennar í Morgunblaðinu .

Baldur Hafstað bhafstad@hi.is