Skúli Thorlacius Þórðarson fæddist að Teigi í Fljótshlíð 10. apríl 1741. Foreldrar hans voru Þórður Thorlacius klausturhaldari í Teigi og k.h. Kristín Sigurðardóttir eldra sýslumanns í Saurbæ á Kjalarnesi Sigurðssonar.

Skúli Thorlacius Þórðarson fæddist að Teigi í Fljótshlíð 10. apríl 1741. Foreldrar hans voru Þórður Thorlacius klausturhaldari í Teigi og k.h. Kristín Sigurðardóttir eldra sýslumanns í Saurbæ á Kjalarnesi Sigurðssonar.

Skúli varð stúdent 1758 og hélt til Kaupmannahafnar sama ár. Hann lauk lárviðarprófi í heimspeki 1761, guðfræðiprófi 1765 og hlaut meistaranafnbót í heimspeki 1768.

Skúli varð rektor latínuskólans í Kolding 1769 og rektor Maríuskóla í Kaupmannahöfn, helsta latínuskóla Danmerkur, 1777. Hann fékk lausn frá því starfi 1803.

Skúli varð jústitsráð 1780, félagi Hins danska vísindafélags 1789, heiðursfélagi fornfræðafélagsins í Lundúnum sama ár og var auk þess félagi ýmissa annarra vísindafélaga og átti sæti í ýmsum nefndum, t.d. Árnasafnsnefnd og skólatilhögunarnefnd Dana.

Hann var skipaður leyndaskjalavörður 1780 en afþakkaði það. Hann þótti hinn snjallasti málfræðingur og sinnti talsvert íslenskri fornfræði.

Skúli þótti einnig eitt besta latínuskáldið sem þá var uppi og fékk verðlaunapening fyrir kvæði við trúlofun Friðriks erfðaprins.

Vegna annasams og glæsilegs starfsferils liggur ekki mikið eftir Skúla heimspekilegs eðlis, en þrjár ritgerðir frá námsárum hans eru þó prentaðar og eru þær undir áhrifum frá heimspeki Christians Wolff. Sjá nánar í bók Henrys Alexanders Henryssonar: Frumspeki og óendanleiki í verkum Skúla Thorlaciusar.

Kona Skúla var Agatha Thorlacius, f. 1743, d. 1825, dóttir H.C. Risbrighs í Vejlby. Synir Skúla og Agöthu voru Kristján Pétur, rektor í Kolding, Þórður, sýslumaður í S-Múl. og Árnessýslu, síðar héraðsskrifari í Ringköbing, Birgir, prófessor við Kaupmannahafnarháskóla, og Kristján Lúðvík, dómari í Landsyfirdómi í Kaupmannahöfn.

Skúli lést í Kaupmannahöfn 30.3. 1815.