Fræði „Fólk virðir vísindalega þekkingu að vettugi og reynir að útiloka hana,“ segir Auður í viðtalinu.
Fræði „Fólk virðir vísindalega þekkingu að vettugi og reynir að útiloka hana,“ segir Auður í viðtalinu. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is „Vísindastarf í heiminum í dag stendur andspænis ógn.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Vísindastarf í heiminum í dag stendur andspænis ógn. Nú er svo komið að órökstuddar fullyrðingar þykja jafnréttháar staðreyndum sem reyndar hafa verið með vísindalegum aðferðum,“ segir Auður Magnúsdóttir, formaður Samtaka kvenna í vísindum. „Að rannsóknum sem vísindamenn á Íslandi sinna sé naumt skammtað fé hefur alltaf verið vandamál, svo þar er ekkert nýtt á ferðinni. Hins vegar er alvarlegt þegar vísindi eru sögð lúxus en ekki grundvöllur að dafnandi samfélagi.“

Uggur í fræðasamfélagi

22. apríl verður svonefnd Vísindaganga í miðbæ Reykjavíkur. Safnast verður saman á Skólavörðuholti kl. 13 og gengið að Iðnó. Þar verður umræðufundur með erindum frá vísindafólki. Mun það fjalla um hættuna sem steðjar að vísindunum í Bandaríkjunum og víðar og áhrif þess alls á umheiminn. Á sama tíma og gangan í Reykjavík fer fram verður hliðstæður viðburður í Washington, höfuðborg Bandaríkjanna. Frumlag þessa er, segir í kynningu, þær breytingar sem orðið hafa á afstöðu til vísindamála frá því að stjórn Donalds Trump forseta tók við völdum.

„Við horfumst nú í augu við mögulega framtíð þar sem fólk virðir ekki einungis vísindalega þekkingu að vettugi heldur reynir að útiloka hana algerlega. Í Bandaríkjunum í dag hafa miðlun vísindaupplýsinga verið settar skorður, svo og samskiptum fræðimanna við almenning og aðra sem hagsmuni hafa. Fræðasamfélagið í Bandaríkjunum er mjög uggandi um framtíð sína en aðallega hvernig stefnumarkandi ákvarðanna stjórnvalda þar verða. Allt lítur út fyrir að hunsa eigi niðurstöður vísindalegra rannsókna og taka eigi ákvarðanir út frá hugmyndafræði, skoðunum eða sérhagsmunum,“ segir Auður og heldur áfram:

„Þetta er sérstaklega alvarlegt í umhverfisfræðum og hjá vísindamönnum sem stunda rannsóknir á loftslagsbreytingum. Nú er hafin ritskoðun á rannsóknum þeirra, efast um forsendur og starfsaðferðir og gert er lítið úr öllu. Afneitun staðreynda, sem sannreyndar hafa verið með vísindalegum aðferðum, ógnar veröldinni nú sem aldrei fyrr. Afneitun á loftslagsbreytingum af mannavöldum setur framtíð allra lífvera á jörðinni í hættu.“

Sá veruleiki að ákvarðanir séu teknar á grundvelli hagsmuna, skoðana og jafnvel hugdetta en ekki bestu þekkingar segir Auður að sé raunar alls ekki bundinn Bandaríkin á síðustu vikum. Sama sé uppi á teningnum hér á landi. Þar megi til dæmis nefna að áður en hafist var handa um gerð Kárahnjúkavirkjunar hafi vistfræðingar og fleiri bent á að sú framkvæmd – með öllum þeim breytingum á umhverfinu sem fylgdu – hefði áhrif á lífríki Lagarfljóts.

Vísindastarf er fjársvelt

„Aðvaranir vísindamanna voru hunsaðar og sagt að fljótið yrði samt og var. Nú er annað komið í ljós. Þá má nefna frumvarp um frelsi í sölu áfengis sem nú liggur fyrir Alþingi. Rannsóknir sýna að greiðara aðgengi að áfengi eykur neyslu þess og ógnar lýðheilsu. Samt er haldið áfram með málið. Við þetta bætist svo að fjársvelti í vísindastarfi á Íslandi er viðvarandi og það grefur undan framtíðarstarfsemi.“

En eru vísindin í tengslum við hið daglega líf fólks? Er fræðastarf sem unnið er í þágu samfélagsins fjöldanum fjarlægt og jafnvel óskiljanlegt? „Við þurfum að sinna þekkingarmiðlun til almennings betur og kynna vísindin fyrir öllum sem áhuga hafa og vekja hann hjá hinum. Þá eru vísindamenn á Íslandi að gera frábæra hluti og á lista yfir þá 3.000 fremstu í heiminum eru Íslendingarnir alls sjö.“