Er meirihlutinn að reyna að hlunnfara borgina?

Þegar Reykjavíkurborg seldi Festi, félagi Ólafs Ólafssonar, lóð í Vogabyggð var miðað við ellefu mánaða gamalt verðmat. Þetta kom fram í frétt í Morgunblaðinu á föstudag. Þar sagði Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina, frá því að þegar flokkur hennar fór fram á nánari upplýsingar á verðmatinu hafi komið í ljós að það væri ársgamalt. Þegar málið fór fyrir borgarráð stóð hins vegar aðeins í skjölunum að verðmatið væri 326 milljónir króna, án þess að getið væri hvenær það hefði verið gert.

Samið var um sölu lóðarinnar án auglýsingar og var hún seld á tæpar 326 milljónir króna. Sú leið er vissulega heimil samkvæmt reglum um skrifstofu eigna og atvinnuþróunar Reykjavíkurborgar, sem sá um söluna. Þó er tekið fram að heimilt sé að semja við þriðja aðila án auglýsingar að því tilskildu að málefnalegar ástæður mæli með því. Skrifstofan hefði hins vegar einnig getað auglýst lóðina á vef sínum og í blöðum eða haldið útboð.

Margt í rekstri borgarinnar er í ólestri. Göturnar eru holóttar eins og svissneskur ostur og ökumönnum líður oft og tíðum eins og skíðamönnum í stórsvigi þegar þeir reyna að sneiða hjá þeim. Ákvarðanir virðast teknar af handahófi eins og þegar ráðist var í breytingar á ferðaþjónustu fatlaðra með þeim afleiðingum að notendur þjónustunnar voru strandaglópar um allan bæ. Í ljós kom að margsinnis hafði verið varað við því að svona myndi fara, en það virtist frekar hvetja en letja. Ekki stendur steinn yfir steini í fjármálum borgarinnar þrátt fyrir uppgangstíma. Gríðarlegur skortur er á húsnæði. Hann var fyrirsjáanlegur, en svo virðist sem meirihlutanum hafi verið mest í mun að bregðast ekki við. Og nú eru einu ráð meirihlutans að hreykja sér af þeim íbúðum sem á eftir að reisa.

Frammistaða meirihlutans í borginni er ráðgáta. Og nú hefur ein ráðgátan bæst við. Það er með ólíkindum að ekki hafi verið reynt að selja lóðina hæstbjóðanda. Fyrst svo var ekki gert er með ólíkindum að stuðst skuli við ársgamalt verðmat í stað þess að meta lóðina að nýju og reyna að fá sem hæst verð fyrir hana. Er markmiðið að hlunnfara borgina? Þenslan á húsnæðismarkaði hefur ekki beinlínis farið leynt. Önnur ráðgáta er að þessi tiltekni kaupandi skuli njóta slíkrar fyrirgreiðslu.

Það er greinilegt að umræðustjórnmálin hafa vikið fyrir ráðgátustjórnmálum.