Þingvellir Bílar mætast á mjóum veginum í þjóðgarðinum.
Þingvellir Bílar mætast á mjóum veginum í þjóðgarðinum. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
„Uppsveitirnar í Árnessýslu eru algjörlega afskiptar í fjárveitingum til vegamála. Vegakerfið ber ekki sívaxandi þunga vegna fjölgunar ferðamanna.

„Uppsveitirnar í Árnessýslu eru algjörlega afskiptar í fjárveitingum til vegamála. Vegakerfið ber ekki sívaxandi þunga vegna fjölgunar ferðamanna. Átak í vegamálum hér bíður og til þess þurfa menn að verja milljörðum króna,“ segir Helgi Kjartansson, oddviti Bláskógabyggðar.

Þrýst er á um úrbætur í vegakerfinu í sveitinni. Helgi segir að óhapp á dögunum, þegar stór rúta fór út af vegi í þjóðgarðinum á Þingvöllum þar sem vegkantur gaf, sýni að úrbóta sé þörf. Hann bendir einnig á að víða sé slitlag að brotna upp, breikka þurfi vegi og svo mætti áfram telja.

Bláskógabyggð spannar Biskupstungur, Laugardal og Þingvallasveit. Vegir þar eru fjölfarnir og má nefna að í fyrra fóru um Mosfellsheiði 685 þúsund bílar, en liðlega 500 þúsund yfir Holtavörðuheiðina. Fleiri sambærileg dæmi af svæðinu eru tínd til og segir Helgi þau staðfesta að fjárveitingar til vegamála stjórnist ekki sem vera skyldi af umferðarálagi, sem þó ætti að vera eðlilegt viðmið.

„Núverandi ástand í samgöngumálum hér býður hættunni heim, samanber óhappið við Þingvelli. Allir virðast sammála um mikilvægi úrbóta, svo sem þingmenn sem hafa fjárveitingavaldið, svo ég veit ekki á hverju strandar,“ segir oddvitinn. sbs@mbl.is