Áskoranir Frá Sauðárkróki. Styrking krónu torveldar útflutning á kjöti og fiski. Fram undan er að reisa verksmiðju sem vinnur heilsuprótein úr mysu.
Áskoranir Frá Sauðárkróki. Styrking krónu torveldar útflutning á kjöti og fiski. Fram undan er að reisa verksmiðju sem vinnur heilsuprótein úr mysu. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Heildartekjur Kaupfélags Skagfirðinga námu 31,2 milljörðum króna á síðasta ári og var hagnaður af rekstri samstæðunnar um 1.367 milljónir króna á árinu. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði nam 4,2 milljörðum.

Heildartekjur Kaupfélags Skagfirðinga námu 31,2 milljörðum króna á síðasta ári og var hagnaður af rekstri samstæðunnar um 1.367 milljónir króna á árinu. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði nam 4,2 milljörðum. Feykir greinir frá þessu, en aðalfundur KS fór fram á Sauðárkróki á laugardag.

Að sögn Bjarna Péturs Maronssonar, stjórnarformanns KS, dróst hagnaður félagsins saman um u.þ.b. 400 milljónir og skýrist það helst af hærri afskriftum og óhagstæðri þróun á gengi gjaldmiðla.

„Í megindráttum var reksturinn svipaður og árin á undan en styrking krónunnar hefur gert útflutning á sjávarafurðum og landbúnaðarafurðum þyngri í vöfum. Sjómannaverkfall hafði líka einhver áhrif í lok árs, en áhrifa verkfallsins mun þó aðallega gæta í rekstrartölum yfirstandandi árs.“

Bjarni segir of snemmt að spá fyrir um hvernig reksturinn muni þróast á þessu ári. „Það hjálpar okkur að við erum með margar stoðir undir rekstrinum og þegar eitt svið verður fyrir áföllum eru önnur kannski að koma betur út úr árinu en búist var við. Þó svo að útflutningurinn sé þungur er engin stórkostleg hætta á ferðum.“

Fram undan eru ýmis verkefni hjá Kaupfélagi Skagfirðinga og nefnir Bjarni byggingu nýrrar verksmiðju sem vinnur heilsuprótein úr mysu sem áður rann til sjávar. „Með því er bæði verið að auka verðmæti þessarar mjólkurvöru, sem áður fór til spillis, og koma í veg fyrir mengun af völdum mysunnar. Þetta er dýr framkvæmd en útreikningar sýna að þessi leið verður ódýrari en að koma upp hreinsibúnaði. Framkvæmdir eru þegar hafnar en kostnaðurinn mun skýrast betur þegar líða tekur á árið.“ ai@mbl.is