Áður en keppni á Íslandsmótinu í handknattleik hófst í haust skrifaði ég langhunda í þetta ágæta blað þar sem settar voru fram vangaveltur um gengi liðanna 10 í deildinni. Þar taldi ég öll tormerki vera á að Fram-liðið héldi sæti sínu í deildinni.
Áður en keppni á Íslandsmótinu í handknattleik hófst í haust skrifaði ég langhunda í þetta ágæta blað þar sem settar voru fram vangaveltur um gengi liðanna 10 í deildinni.

Þar taldi ég öll tormerki vera á að Fram-liðið héldi sæti sínu í deildinni. Fram-liðsins biði lítið annað en fall í 1. deild. Tíu leikmenn hefðu yfirgefið herbúðir Safamýrarliðsins fyrir keppnistímabilið og þeir sem fyllt hefðu í skörðin væru í flestum tilfellum ekki eins góðir og þeir sem farið hefðu. Auk þess hefði Fram-liðið verið í félagsskap falldraugsins árin tvö á undan. Þess vegna væri lítil von til að lið sem væri lakara á gamla góða pappírnum en það sem fyrir var næði að lifa deildarkeppnina af.

Að vísu sló ég þann varnagla að ef svo ólíklega færi að Fram-liðið héldi sæti sínu væri hægt að segja Guðmund Helga Pálsson þjálfara sannkallaðan kraftaverkmann. Nú virðist vera komið á daginn á Guðmundur Helgi er kraftaverkamaður.

Ekki aðeins var Fram-liðið öruggt um sæti í deildinni þegar lokaumferðin fór fram í síðustu viku heldur flaug liðið inn í úrslitakeppnina. Fram hafnaði í sjötta sæti og gerði sér síðan lítið fyrir og vann Hauka í fyrsta leik liðanna í 8 liða úrslitum um Íslandsmeistaratitilinn síðdegis í gær.

Það skyldi þá aldrei fara svo að kraftaverkamaðurinn Guðmundur Helgi Pálsson gerði gott betur en að halda Fram-liðinu uppi í deildinni heldur yrði einn fjögurra þjálfara sem eiga lið í undanúrslitum um Íslandsmeistaratitilinn eftir páskahátíðina? Getur verið að ég eigi inni hjá Guðmundi Helga illa lyktandi sokkapar?