Tónlistarmenn sem spila og syngja, upplestur skálda, sálgæsla presta og sérfræðinga, læknisþjónusta, skólastarf, aðstaða til íþróttaiðkunar, starfsmöguleikar og margt fleira.

Tónlistarmenn sem spila og syngja, upplestur skálda, sálgæsla presta og sérfræðinga, læknisþjónusta, skólastarf, aðstaða til íþróttaiðkunar, starfsmöguleikar og margt fleira. Já, svo sannarlega stendur því fólki sem er komið undir manna hendur og þarf að dúsa í fangelsi margt til boða. Enginn skyldi þó ætla að tukthús séu góð. Upp að vissu marki eiga þau að vera vond. En sé viljinn til staðar og aðstæður skaplegar ættu fangar meðan á afplánun stendur að geta náð áttum í lífinu. Framhaldið í frjálsri veröld er svo undir hverjum og einum komið en víst er fortíðin þessum einstaklingum þyngri baggi en öðrum. Sýni fólk sem brotið hefur af sér hins vegar skýra iðrun og haldi sig á mottunni eru flestir tilbúnir að setja kíkinn fyrir blinda augað og gefa viðkomandi annað tækifæri.

Enginn fer á Litla-Hraun, Sogn, Hólmsheiði, Kvíabryggju eða Akureyri að ástæðulausu. Refsing er afleiðing þess að einn hefur brotið á öðrum svo skaði hefur hlotist af. Auðvitað er misjafnt hverjar afleiðingar afbrota eru en Víkverji veltir fyrir sér hvort þolendum standi til boða sama aðstoð og gerendum.

Þekkt er að fórnarlömb kynferðisafbrota þurfi alla ævi að glíma við andlegar afleiðingar þess, þeir sem verða fyrir líkamsárás geta borið varanlega skaða af og ástvinir þeirra sem eru myrtir syrgja ævina á enda. Fær þetta fólk af samfélagsins hálfu þá hjálp sem þörf gæti verið á? Eða er þeim sem eru skaddaðir eða harmandi einfaldlega sagt að bíta á jaxlinn, að sólin komi aftur upp og lífið haldi áfram?

Að mati Víkverja stappar stundum nærri að umfjöllun um fanga og aðbúnað þeirra sé sveipuð rómantík eða fegurð. Sama gildir um frásagnir af útigangsfólki, fíklum og fleirum. Dramað í sögunum snýr öfugt og samúðin er með þeim er síst skyldi. Er hugsanlega þörf á vitundarvakning um stöðu þeirra sem bera harm í hljóði.