Bandaríska atvinnumálaráðuneytið hefur höfðað mál á hendur Google svo að knýja megi fyrirtækið til að veita ráðuneytinu upplýsingar um launakjör starfsmanna.

Bandaríska atvinnumálaráðuneytið hefur höfðað mál á hendur Google svo að knýja megi fyrirtækið til að veita ráðuneytinu upplýsingar um launakjör starfsmanna. Þar sem Google vinnur ýmis verkefni fyrir bandarísk stjórnvöld þarf fyrirtækið að sýna fram á að starfsmönnum sé ekki mismunað á grundvelli kyns, kynþáttar, trúar og annarra þátta. Google hefur neitað að láta ákveðnar upplýsingar af hendi og hefur ráðuneytið því höfðað mál til að geta lokið rannsókn sinni.

Breska dagblaðið Guardian segir ráðuneytið hafa vísbendingar um að leitarvélarisinn mismuni konum með kerfisbundnum hætti með því að greiða þeim lægri laun en körlum. Talsmaður ráðuneytisins segir að eins og rannsóknin standi í dag virðist um verulega mismunun sé að ræða, og meiri en hjá öðrum fyrirtækjum í sama geira. Google hefur neitað ásökunum ráðuneytisins og segir árlegar úttektir sem framkvæmdar eru innanhúss sýna að enginn munur sé á launum karla og kvenna hjá fyrirtækinu.

Talsmaður Google segir jafnframt að fyrirtækið hafi afhent ráðuneytinu hundruð þúsunda skjala og að sú upplýsingagjöf sem farið sé fram á í dómsmálinu sé of víðtæk og nái yfir trúnaðargögn.

Atvinnumálaráðuneytið hefur verið iðið við að draga fyrirtæki í Kísildal fyrir dómstóla. Í september höfðaði ráðuneytið mál gegn Palantir vegna gruns um að fyrirtækið mismunaði asískum umsækjendum. Í janúar var mál höfðað á hendur Oracle vegna gruns um að þar fengju hvítir karlmenn betur borgað en aðrir starfsmenn. Palantir segir greiningu ráðuneytisins gallaða og Oracle segir málshöfðunina af pólitískum meiði. ai@mbl.is