[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kvikmyndafræðingnum Sigríði Regínu Sigurþórsdóttur finnst ofsalega gaman að vinna við eina virtustu kvikmyndahátíð í heimi, Tribeca Film Festival, sem haldin verður í New York seinna í mánuðinum.

Hildur Loftsdóttir

hildurl@mbl.is

Ég fór fyrst í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, ég hafði þá hugmynd að hún myndi sameina allt sem ég hef áhuga á, en sú varð ekki raunin. Það er mjög margt sem ég brenn fyrir og ég ákvað að prófa kvikmyndafræðina því að kvikmyndir eru fyrir mér sú grein sem dregur saman svo ótrúlega margt í listum, viðfangsefnum og í aðferðum við að skoða heiminn. Um leið og ég byrjaði í fyrsta tímanum mínum á fyrsta námskeiðinu varð ég ástfangin af faginu, og það varð ekki aftur snúið,“ segir Sigríður Regína sem tók BA-próf í faginu við Háskóla Íslands og síðan meistarapróf sl. vor við New York University. „Í kvikmyndfræðinni er þessi skapandi túlkun á samtímanum, sem er einmitt það sem ég lifi fyrir, velti fyrir mér og skoða.“ Sigríður hefur ekki einungis komið að fræðilegri hlið kvikmyndagerðar því hún var skrifta í Þröstum Rúnars Rúnarssonar og hefur unnið að þónokkrum öðrum styttri verkefnum, framleitt stuttmyndir og nýlega tónlistarmyndband fyrir East of My Youth. Auk þess vinnur hún náið með unnusta sínum, Brúsa Ólasyni, sem er í meistaranámi í leikstjórn við Columbia-háskóla og sýnir um þessar mundir sína fyrstu stuttmynd, Sjáumst, á Aspen-stuttmyndahátíðinni.

Kvikmyndahátíð sem stendur upp úr

Að meistaranámi loknu fékk Sigga Regína starf við Tribeca Film Festival, sem stofnuð var árið 2001, af Jane Rosenthal, Craig Hatkoff og stórleikaranum Robert De Niro.

„Það verður að segjast að Tribeca er ein af virtustu hátíðunum í Bandaríkjunum, en á sama tíma er hún er mjög ung og verður haldin núna í 16. skipti. Umgerð og skipulag hátíðarinnar er mjög óhefðbundið miðað við aðrar kvikmyndahátíðir. Þau reyna að standa upp úr og fara aðrar leiðir en tíðkast. Þótt hátíðin sé alþjóðleg er lögð mikil áhersla á að styðja við minni kvikmyndagerð og New York sem kvikmyndagerðarborg. Það eru líka sýningar á eldri myndum sem eru þá oft í samhengi við einhverja viðburði. Í ár verða t.d. afmælissýningar á Walt Disney-myndinni um Aladín og Bowling for Columbine eftir Michael Moore. Svo Godfather 1 og 2 og þá mætir góður hópur af leikurunum. Það verður alveg geggjað og auðvitað löngu uppselt,“ segir Sigga Regína spennt.

Horft á sjö þúsund myndir

„Ég fékk starfsnámsstöðu í september en fékk svo stöðuhækkun í janúar og hef síðan gegnt stöðu „programming assistant“. Ég sé um skipulagningu á kynningum og „Q&A“, eða spurningar og svör, fyrir og eftir sýningu á hverri kvikmynd. Ég vinn mjög náið með dagskrárfólkinu; þeim sem velja kvikmyndirnar og setja upp dagskrána, og er tengslum við kvikmyndagerðarfólkið sem kemur á hátíðina.

Í ár verða sýndar 98 myndir í fullri lengd. Það voru alls 8.772 myndir og verk send inn á hátíðina, þar af 3.372 í fullri lengd, og það er horft á hverja einustu mynd.“

Sigga Regína tekur ekki þátt í forvali á myndunum en vonast til að taka þátt í því seinna. „Mér finnst það alveg ofsalega skemmtilegt. Reyndar tók ég þátt í forvalsverkefni í Snap Chat-keppninni. Það er lítil keppni með 10 stuttmyndum sem eru teknar upp með Snap Chat-spjallappinu. Það er verið að skoða hvernig Snap Chat getur verið skapandi miðill fyrir kvikmyndagerð, og myndina má bara vinna í snapchat-appinu, t.d. má ekki senda efnið í tölvu og auka gæðin þar. Þetta var mjög áhugavert verkefni því þegar maður horfir á þessar myndir, í þessum miðli, þarf maður að endurhugsa það hvernig maður metur frásagnir, enda er þetta öðruvísi miðill í rauninni.“

RIFF hefur alltaf verið hátíðin mín

Sigga Regína segist hafa unnið við eina kvikmyndahátíð áður en hún byrjaði að vinna við Tribeca Film Festival.

„Ég hafði unnið við eina nemendakvikmyndahátíð í skólanum, Fusion Film Festival, sem er mjög flott hátíð sem beinir sjónum sínum að konum í kvikmyndum.“

Hún hafði lítið séð af Tribeca-hátíðinni áður en hún byrjaði að vinna við hana. „Sem námsmaður í New York þarf maður oft að forgangsraða fjármunum. Bæði er námið krefjandi og dýrt og borgin dýr,“ segir Sigga Regína. „Ætli ég hafi ekki farið á tvær sýningar sem ég komst á ókeypis. En ég hef alltaf dáðst að þessari hátíð og langað á hana. Heima hef ég alltaf verið fastagestur á RIFF, Alþjóðlegu kvikmyndhátíðinni í Reykjavík. Ég hef setið þar heilu dagana og horft á myndir, þannig að ég er mikil kvikmyndhátíðarkona þótt eina hátíðin mín hafi alltaf verið RIFF,“ segir Sigga Regína og hlær.

Gaman að uppgötva eitthvað nýtt

„Ég er mjög spennt fyrir öllu á hátíðinni. Það er skemmtilegt að fá tækifæri til þess að sjá og hlusta á fólk sem fyllir mann innblæstri, og margir sjá átrúnaðargoðin sín hér. En ég verð að segja að ég er jafnvel spenntari fyrir því að hlusta á og tala við yngra kvikmyndagerðarfólk sem er jafnvel að stíga sín fyrstu skref. Það er svo gaman að sjá hvert þau eru að fara og að uppgötva eitthvað nýtt og spennandi. Mér finnst líka svo forvitnilegt hvernig fólkið í salnum upplifir kvikmyndina, sjá hvað áhorfendur spyrja um eftir á, hvað vekur sérstaka athygli þeirra. Eins hvernig kvikmyndagerðarfólkið bregst við spurningunum. Það er alveg uppáhalds hjá mér þegar þeir fá eitthvað óvænt.“

Þótt Sigga Regína fái ekki tækifæri til að vera á hátíðinni sem gestur, þá finnst henni mjög spennandi að fá að vera á bak við tjöldin í öllum ysnum og þysnum sem er í kringum þetta. „Ég get ekki séð margar myndir eða tekið þátt í viðburðum. En ég verð að fylgjast með öllu og það verður áreiðanlega líka ótrúlega skemmtilegt.

Kvikmyndir til almennings

Því miður verður líklega ekki mikið áframhald á þessu skemmtilega ævintýri Siggu Regínu.

„Ég má vinna fram í júlí og þá er vinnuvísað mitt útrunnið,“ segir hún, skiljanlega nokkuð svekkt. Reyndar gæti annað ekki síður skemmtilegt ævintýri verið að hefjast hjá þessum unga kvikmyndafræðingi. „Ég fékk inngöngu í annað meistaranám,“ segir Sigga Regína. Það er við sama skóla og heitir „Moving Image Archiving and Preservation“, eða varðveislufræði kvikmynda. Ég hef mikinn áhuga á varðveislu íslenskra kvikmynda. Ég hef komið á Kvikmyndasafn Íslands og vegna fjármagnsskorts er staðan þar ekki nógu góð. Þar eru verkefni framundan sem sitja á hakanum, en starfið sem þau sinna, er svo ofsalega mikilvægt. Við erum að tala um varðveislu ómetanlegra menningarverðmæta.

Þetta er mjög heillandi svið kvikmyndafræðinnar sem ég fékk brennandi áhuga á þegar ég tók nokkur námskeið innan deildarinnar á síðasta ári. Í því er einnig lögð áhersla á sýningarstjórnun, kynningar, kvikmyndadagskrárgerð og miðlun. Mér finnst líka fræðsla og miðlun mjög skemmtileg og það að koma þekkingu á kvikmyndum til almennings. Það er ótrúlega mikið af íslenskum kvikmyndum sem fólk hefur ekki séð og hefur takmarkaðan aðgang að. Það er reyndar til netsíða sem heitir www.icelandiccinema.com þar sem er hægt að leigja íslenskar kvikmyndir og mér finnst það frábært framtak til að veita fólki aðgang að menningarverðmætunum okkar,“ segir Sigríður Regína sem vonandi lætur til sín taka við íslenska kvikmyndamenningu sem allra fyrst.