Markmið Jafnlaunastaðallinn á að útrýma kynbundnum launamun.
Markmið Jafnlaunastaðallinn á að útrýma kynbundnum launamun. — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ómar Friðriksson omfr@mbl.is Talið er að það geti reynst flókið verkefni fyrir minni fyrirtæki landsins að fá jafnlaunavottun, sem öll fyrirtæki með 25 eða fleiri starfsmenn þurfa að fá verði frumvarp félagsmálaráðherra lögfest.

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Talið er að það geti reynst flókið verkefni fyrir minni fyrirtæki landsins að fá jafnlaunavottun, sem öll fyrirtæki með 25 eða fleiri starfsmenn þurfa að fá verði frumvarp félagsmálaráðherra lögfest. Tæplega helmingur fyrirtækja og stofnana landsins sem frumvarpið nær til eru með 25 til 50 starfsmenn, eða alls um 560 launagreiðendur.

Nokkur reynsla er þegar komin á innleiðingu jafnlaunastaðalsins. Auglýsingastofan Hvíta húsið er í þessum stærðarflokki, en fyrirtækið ákvað að eigin frumkvæði að ganga í gegnum þetta vottunarferli og fékk jafnlaunavottun VR í desember sl. Vinna við undirbúning þess stóð yfir í heilt ár í fyrirtækinu.

Rýna þurfti í öll störf

„Þegar allt er talið þá er þetta ekki ódýrt en vinnan er margslungin. Eitt er að fara í gegnum staðalinn og fylgja öllum þeim línum sem þar eru settar,“ segir Anna Kristín Kristjánsdóttir, ráðgjafi og stjórnarmaður hjá Hvíta húsinu. „Fyrir fyrirtæki eins og okkar sem vorum ekki með staðlaðar starfslýsingar og það voru t.d. ekki allir með formlega ráðningarsamninga, var þetta mikil vinna en mjög þörf,“ segir hún. Vottunarferlið sé langt og tímafrekt og kalli á mikla vinnu en ávinningurinn af henni sé ótvíræður.

,,Við ákváðum að fara í þessa vegferð vegna þess að við stóðum á ákveðnum tímamótum og vorum að vinna að stefnumótun í fyrirtækinu. Okkur fannst tilvalið að gera þetta í leiðinni. Við tókum ákvörðun um að fara í þetta í desember árið 2015 og tókum okkur ár í þetta verkefni. Þá hófst greiningarvinna, hvað þyrfti að gera og hvað þetta myndi kosta, en í ljós kom að kostnaðurinn var vanáætlaður,“ segir hún.

Hvíta húsið átti það sammerkt með flestum fyrirtækjum af þessari stærð að vera ekki með sérstakan mannauðsstjóra og var ekki með formlega jafnréttisáætlun sem áskilið er til að geta fengið vottun. Innleiðing jafnlaunastaðalsins kallaði því á vinnu sem er sennilega að ýmsu leyti frábrugðin undirbúningi í stærri fyrirtækjum sem reka sértaka mannauðsdeild.

Við innleiðingu staðalsins þarf m.a. að búa til viðmið starfa og starfaflokkun í fyrirtækinu. Rýna þurfti í öll störf og allan launastrúktúr Hvíta hússins og skrifa upp starfslýsingu og var það gríðarlega mikil vinna, að sögn hennar. ,,Launafulltrúinn hjá okkur skilaði um það bil 150 tímum inn í þetta verkefni. Ég var líka í verkefninu sem stjórnarmeðlimur og svo kallaði ég jafnóðum til fólk eftir þörfum.“

Anna Kristín er varaformaður Félags atvinnurekenda, en innan vébanda þess eru mörg fyrirtæki með nokkra tugi starfsmanna. Spurð hvort jafnlaunastaðallinn sé illa sniðinn að minni fyrirtækjum segir hún að hann sé mjög ítarlegur og flókið sé t.d. að meta störf og menntun og starfsreynslu hvers og eins til að uppfylla kröfur staðalsins.

„Það væri hægt að einfalda þetta t.d. ef það væru tilbúnar verklagsreglur þannig að hvert og eitt fyrirtæki þurfi ekki að búa þetta til frá grunni. Það væri hægt að búa til fleiri hjálpargögn,“ segir hún.

Anna Kristín segist hafa heyrt forsvarsmenn minni fyrirtækja lýsa því að þeir treysti sér ekki í þetta verkefni. „Fólk sér fyrir sér gríðarlega vinnu og tíma og peninga og það er eðlileg hugsun Það hafa ekki öll fyrirtæki svigrúm til að setja starfsmann í þetta verkefni.“

Fastur kostnaður Hvíta hússins við að fá faggilta vottunarmenn og fá jafnlaunavottunina var 450 þúsund. Þegar vinnan sem lögð er í verkefnið er hins vegar metin má varlega áætla að hún hafi kostað yfir fjórar milljónir kr. að sögn hennar.

Sex mannmánuðir hjá Tollstjóra

Fram kom í Morgunblaðinu í síðustu viku að embætti tollstjóra var fyrsta stofnunin til að fá jafnlaunavottun í tilraunaverkefni sem staðið hefur yfir. Kostnaður við vottunina sjálfa var um 760 þús. kr. en áætlað er að heildarvinnan sem fór í innleiðingu jafnlaunastaðalsins hafi verið sex mannmánuðir, sem svarar til fullrar vinnu eins starfsmanns í hálft ár.