Grindavíkurvegur Mikil umferð sem raunar eykst mjög hratt nú.
Grindavíkurvegur Mikil umferð sem raunar eykst mjög hratt nú. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is Starfsmenn Vegagerðarinnar munu á næstunni taka út helstu atriði á Grindavíkurvegi með tilliti til umferðaröryggis þar. „Úttekt er fyrsta skrefið.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Starfsmenn Vegagerðarinnar munu á næstunni taka út helstu atriði á Grindavíkurvegi með tilliti til umferðaröryggis þar. „Úttekt er fyrsta skrefið. Nú sætum við lagi og förum einhvern næstu daga þegar vel viðrar,“ segir G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar, í samtali við Morgunblaðið. Sem kunnugt er hafa Grindvíkingar mjög þrýst á um lagfæringar á vegunum og kom sú krafa fram í kjölfar tveggja banaslysa þar nýlega. Var meðal annars fundað með Hreini Haraldssyni vegamálastjóra vegna þessa.

Hjá Vegagerðinni hafa verið teknar frá 20 milljónir króna vegna fyrstu framkvæmda í umhverfi Grindarvíkurvegar, sem farið verður í þegar niðurstöður væntanlegrar úttektar liggja fyrir. Það eru 16 milljónir króna af almennu viðhaldsfé, en fjórar milljónir króna eru teknar úr potti sem er merktur uppsetningu vegriða.

Fjármögnun og færar leiðir

„Úrbætur á Grindavíkurvegi eru mjög brýnar og verða að komast í framkvæmd. Á þessu stigi er mikilvægast að greint verði nákvæmlega hvað í raun þarf að gera og hver kostnaður verði. Með slíkri úttekt og upplýsingum er hægt að þoka málinu áfram,“ segir Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi.

Rýni fróðustu manna segir Vilhjálmur muni svara þeirri spurningu hvort Grindavíkurvegurinn skuli vera 2+2 eða 2+1 vegur, hvort endurbætur dugi á ákveðnum stöðum og hvaða tæknilegum atriðum öðrum þurfi að mæta. Að því fengnu þurfi að koma verkinu inn á samgönguáætlun. Um mikilvægi þess sé einhugur meðal þingmanna Sunnlendinga.

Margir í Bláa lónið

Gildandi samgönguáætlun nær til ársins 2022 og þar eru öll helstu atriðin í vegamálum sem eru á tímasettu plani. Grindavíkurvegur er utan þess en Vilhjálmur vekur athygli á því að í áætluninni sé svigrúm til þess að fara fljótt í framkvæmdir á vegum sem mikið álag er á vegna ferðamannastraums. Leiðin til Grindavíkur frá Reykjanesbraut inn í bæ, sem er um fjórtán kílómetrar, falli klárlega undir það.