— Morgunblaðið/Halldór Þormar
Það segir sína sögu um hvernig þetta Ríkisútvarp er orðið og dagskráin þar að síðasti tengiliður svokallaðrar útvarpsfjölskyldu, Sigurlaug Margrét Jónasdóttir, skuli ekki vera með neina nýja þætti í útvarpinu, því að það er sífellt verið að endurflytja...

Það segir sína sögu um hvernig þetta Ríkisútvarp er orðið og dagskráin þar að síðasti tengiliður svokallaðrar útvarpsfjölskyldu, Sigurlaug Margrét Jónasdóttir, skuli ekki vera með neina nýja þætti í útvarpinu, því að það er sífellt verið að endurflytja þætti hennar í útvarpinu, jafnvel þá sem eru varla nema mánaðargamlir og ekki það, ýmist á morgnana eða laust eftir hádegi á laugardögum. Hún var ráðin þulur í útvarpinu en virðist vera hætt því. Það er engu líkara en hún sé búin að gefast upp á þessu útvarpi og alveg hætt störfum þar en hafi fallist á að þættir hennar og föður hennar séu endurfluttir í tíma og ótíma. Þó að það sé nú gaman að hlusta á þau feðgin, og þættir þeirra áhugaverðir og skemmtilegir er einum of mikið að flytja þá þætti Sigurlaugar sem voru frumfluttir fyrir hálfum mánuði, þremur vikum. Að flytja þætti sem fluttir voru fyrir 20-30 árum er í lagi, enda gaman að rifja þá upp, en í öllum bænum hlífið okkur hlustendum við endurflutningi þátta sem eru nýlega frumfluttir. Það er einum of mikið. Mál er að linni.

Guðbjörg Snót Jónsdóttir.