Lagt Lögreglan tók á móti skipinu þegar því var lagt við bryggju og skoðuðu kafarar búnað skipsins.
Lagt Lögreglan tók á móti skipinu þegar því var lagt við bryggju og skoðuðu kafarar búnað skipsins. — Morgunblaðið/Golli
Magnús Heimir Jónasson mhj@mbl.is Á laugardaginn ákvað Landhelgisgæsla Íslands að stefna norska rannsóknarskipinu Seabed Constructor til hafnar vegna gruns um að það stundaði ólöglegar rannsóknir í íslenskri efnahagslögsögu.

Magnús Heimir Jónasson

mhj@mbl.is

Á laugardaginn ákvað Landhelgisgæsla Íslands að stefna norska rannsóknarskipinu Seabed Constructor til hafnar vegna gruns um að það stundaði ólöglegar rannsóknir í íslenskri efnahagslögsögu. Skipið lagði úr höfn í Reykjavík 22. mars og hafði haldið sig á afmörkuðu svæði um 120 sjómílur frá Íslandi. Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar óskaði skýringar á athöfnum skipsins og þóttu svörin óljós. Var því ákveðið að stefna skipinu til hafnar til að fá betri skýringar á athöfnum þess.

Misvísandi skilaboð úr skipinu

„Við verðum vör við þetta skip, eiginlega fyrir tilviljun. Það er kveikt á AIS-búnaði, en það er svo langt úti á sjó að það dettur ekki inn nema bara öðru hvoru í kerfum okkar,“ segir Georg Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar. Hann segir að þegar ljóst hafi orðið að skipið hefði verið lengi á sama stað hafi verið ákveðið að hafa samband. „Við fengum fyrst svör um að þeir væru að skoða „an interesting target“ frá seinni heimsstyrjöldinni og gátu þeir ekki útskýrt það nánar. Svo voru misvísandi upplýsingar um að þeir hefðu verið við rannsóknir en gætu ekki staðið í rannsóknum vegna veðurs núna,“ segir Georg. Hann bætir við að upplýsingar hafi borist á föstudaginn um að skipverjar væru að leita að skipsflaki, en þær upplýsingar komu ekki frá skipinu sjálfu heldur lögmanni félagsins.

Georg segir skipið ekki hafa nein rannsóknarleyfi í íslenskri efnahagslögsögu og þess vegna hafi verið ákveðið að stefna því til hafnar. Hann segir það ekki skipta máli að skipverjar segist hafa verið að leita að skipsflaki. „Það er bara annað mál. Til þess að finna flak þarf að gera einhverja rannsókn og til þess að gera þá rannsókn þarf leyfi. Þetta er óforsvaranleg framkoma. Þetta er skip sem kostar tugi milljóna á dag. Þetta er útgerð sem starfar um allan heim og forráðamenn hennar vita alveg að um svona gilda ákveðnar reglur. Þetta finnst mér grunsamlegt,“ segir Georg.

Bragi Dór Hafþórsson, lögmaður Advanced Marine Services, segir að fyrirtækið sérhæfi sig í björgun verðmæta úr skipum og telur að umbjóðendur sínir hafi ekki þurft leyfi til að sækja verðmæti úr flakinu.

„Samkvæmt ákvæðum laga um landhelgi, efnahagslögsögu og landgrunn þarf leyfi fyrir vísindalegum rannsóknum. Það hefur verið skilgreint og umbjóðendur mínir telja að það eigi við um náttúruauðlindir, en þetta eigi ekki við um það að fara niður á flak sem var þekkt fyrir og bjarga verðmætum þaðan,“ segir Bragi Dór. Hann segir einnig að flakið hafi verið þekkt og því hafi engar rannsóknir farið fram. Hann bætir við að fyrirtækið sé í fullu samstarfi við íslensk yfirvöld vegna málsins, en lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur þegar tekið skýrslu af skipstjóranum.

Lögin ekki skýr um málið

Lögreglan rannsakar nú hvort skipið hafi þurft leyfi eða ekki. Bjarni Már Magnússon, doktor í hafrétti við Háskólann í Reykjavík, segir að ríki geti sett ákveðinn regluramma yfir hafrannsóknir. „Það er fjallað um þetta í hafréttarsamningi Sameinuðu þjóðanna en þar er hugtakið ekki skilgreint nákvæmlega.“ Hann segir almennt talið að hafrannsóknir þurfi að snúa að umhverfi hafsins og lykilatriði sé hvort einungis sé verið að sækja verðmæti úr skipsflaki eða ekki.