Í aðdraganda páska, í óöguðum heimi, þar sem fólk eins og undirrituð kaupir páskaegg og borðar þau, í fleirtölu, í nokkrar vikur áður en sjálfur páskadagur rennur upp, detta margir málshættir inn á borð.

Í aðdraganda páska, í óöguðum heimi, þar sem fólk eins og undirrituð kaupir páskaegg og borðar þau, í fleirtölu, í nokkrar vikur áður en sjálfur páskadagur rennur upp, detta margir málshættir inn á borð. Í sérstöku dálæti hjá mér eru málshættir sem bera með sér tortryggni og hálfgerða paranoju og þeir eru ófáir. Málshættir eru stundum eins og einhver sísvikinn náungi sem segir okkur að vera vör um okkur og treysta engu. Af fjölmörgum málsháttum um gestakomur má sjá að við höfum sérstaklega verið á tauginni yfir því að fá heimsóknir. Málshættirnir segja okkur að maður eigi að vera því fegnastur þegar gestirnir fara og passa upp á að þeir steli ekki neinu í heimsókninni, sem mun, ef guð lofar, ekki standa lengi.

Stundum fela málshættir svo í sér ýmis sígild sannindi sem hjartað samþykkir og vottar. En stundum eru þeir sannir á svo hræðilegan hátt, það er að segja, endurspegla eldri ömurlega tíma þegar það sem fólki þótti réttast í þessum heimi var svo vont.

Þannig eru til nokkrir málshættir um börn sem minna okkur á hvernig það gat verið að vera ungur einstaklingur á Íslandi. Þar sem líklegt þótti að börn yrðu betri og gáfaðri af því að vera lamin.

Þannig afhjúpa málshættir hvað viðhorf til barna og tilvera þeirra er margfalt betri en hún var. Það tekur nokkrar kynslóðir að vinda ofan af viðhorfi eins og það sé í lagi að koma fram við börn sem annars flokks. Við erum að verða búin að bíta í sundur þessa keðju af ógáfulegu uppeldi sem Íslendingar hafa fleytt áfram kynslóð eftir kynslóð. Við erum komin óraveg frá því að þykja það í lagi að reka barni löðrung. Við erum líka farin að fjarlægjast þá mýtu að hlutverk barna sé að þóknast bara og hlýða. Og það væri frekar fyndið að heyra einhvern biðja um „þögn við matarborðið“ eins og fyrirmælin voru eitt sinn. Í dag er þetta dýrmæt samverustund til að spjalla saman en ekki tækifæri fyrir foreldri að sýna valdsvið sitt. Þetta mallar allt í rétta átt.

En svo eru það þessi börn sem eru ekki okkar börn. Börnin í Svíþjóð sem mbl.is sagði frá í gær. Sem eru börn hælisleitenda og hafa greinst með svokallað uppgjafarheilkenni. Þau sýna lítil sem engin viðbrögð, hvorki líkamlega né tilfinningaleg, eru nánast í dái, svo alvarlegu að þau þurfa næringu í gegnum slöngu. Álagið sem þau búa við er þeim andlega ofviða.

Við erum komin langt á veg með að koma fram við okkar eigin börn af virðingu og atlæti en ótrúlega stutt með þessi börn. Þau þurfa að fá að komast inn í hlýjuna. julia@mbl.is

Júlía Margrét Alexandersdóttir