Reykjavík Gistiskýlið við Lindargötu hefur verið til umræðu að undanförnu, en nágrannar þess kvarta undan ónæði vegna þeirra sem þar gista.
Reykjavík Gistiskýlið við Lindargötu hefur verið til umræðu að undanförnu, en nágrannar þess kvarta undan ónæði vegna þeirra sem þar gista. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Kristján H. Johannessen khj@mbl.

Sviðsljós

Kristján H. Johannessen

khj@mbl.is

Þessi mikli fjöldi hefur valdið vissum erfiðleikum, en því fleiri veikir einstaklingar sem eru á einum stað, þeim mun meiri verða erfiðleikarnir,“ segir Sveinn Allan Morthens, forstöðumaður Gistiskýlisins við Lindargötu í Reykjavík, en um 25 manns geta gist í skýlinu. Eru skjólstæðingarnir á breiðu aldursbili, allt niður undir tvítugt, og í fyrra var um helmingur þeirra erlendir ríkisborgarar, einkum frá Póllandi.

Utangarðsfólki á höfuðborgarsvæðinu hefur fjölgað undanfarin ár og telur hópurinn um 200 manns, en langflestir þeirra eru karlmenn.

Árið 2014 var gistiskýlið flutt frá Þingholtsstræti, þar sem það var starfandi í um 40 ár, og yfir í stærra húsnæði við Lindargötu. Átti það að hýsa jafnmarga einstaklinga, 20 manns, en með leyfi til undanþágu. Var hugmyndin sú að vísa engum frá, gerðist þess þörf. Þar til nýverið gistu 29 manns í skýlinu.

„Þetta var þungt um tíma,“ segir Sveinn Allan spurður út í áhrif þess að flytja starfsemina í stærra húsnæði. „Við erum að vinda ofan af þessu. Stór hluti vandans var að þessir erlendu einstaklingar gátu ekki fengið aðstoð – þeir töluðu hvorki íslensku né ensku og áttu erfitt með að þiggja þá aðstoð sem bauðst. Nú er búið að flytja nokkra Pólverja úr landi með aðstoð Barka-samtakanna og þeim vegnast vel.“

Kostnaðarsöm þjónusta

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri sagði nýverið á borgarstjórnarfundi að mikilvægt væri að önnur sveitarfélög öxluðu einnig ábyrgð þegar kæmi að búsetuúrræðum fyrir utangarðsfólk. Undir þetta tekur Sveinn Allan. „Það er mjög mikilvægt. Það ætti t.a.m. að kanna betur aðkomu jöfnunarsjóðs sveitarfélaga því þetta er mjög dýr þjónusta,“ segir Sveinn Allan og heldur áfram:

„Ef við hugsum eingöngu um matinn og gistinguna hér hjá okkur, þá kostar nóttin um 13 þúsund krónur á mann. Við erum með vakt allan sólarhringinn og útvegum mat og föt auk þess sem skjólstæðingar okkar komast hér í sturtu.“

Aðalsteinn Sigfússon, félagsmálastjóri Kópavogsbæjar, segir bæinn hafa fest kaup á húsnæði sem eigi að nýtast sem áfangaheimili fyrir fólk sem eigi erfitt með sjálft sig og um leið samskipti við aðra.

„Velferðarsvið er að undirbúa opnun þess, en ég á svo sem ekki von á því að það gerist fyrr en eftir einhverja mánuði,“ segir hann. „Það er hins vegar gert ráð fyrir að húsnæðið verði opnað á þessu ári og erum við ánægð með ákvörðun bæjaryfirvalda að kaupa þetta húsnæði.“

Aðspurður segir Aðalsteinn gert ráð fyrir að níu einstaklingar geti gist í húsinu. „Þarna eru stór herbergi, sum að vísu sameiginleg eins og eldhús, en allt er þetta mjög vistlegt,“ segir hann og bætir við að með þessu sé verið að leysa brýna nauðsyn ákveðins hóps fólks.

Spurður hvort um sé að ræða eins konar gistiskýli kveður hann nei við. „Það er gert ráð fyrir að fólk geti búið þarna í einhverja mánuði og jafnvel misseri,“ segir hann og bætir við að úrræðið sé hugsað fyrir fólk með lögheimili í Kópavogi.

Haraldur L. Haraldsson, bæjarstjóri í Hafnarfirði, segir bæjarstjórn hafa verið í viðræðum við Reykjavíkurborg um samstarf. „Við höfum átt samtal um samstarf um það fólk sem leitar frá okkur í húsnæði Reykjavíkurborgar. Drög um samning liggja fyrir en ekki hefur verið gengið frá þeim,“ segir Haraldur.