Brattur John Cryan væntir þess að efasemdarraddir muni þagna.
Brattur John Cryan væntir þess að efasemdarraddir muni þagna. — AFP
John Cryan, bankastjóri Deutsche Bank, sendi starfsmönnum bankans bréf á föstudag þar sem hann sagði að niðurskurðartímabili Deutsche væri lokið.

John Cryan, bankastjóri Deutsche Bank, sendi starfsmönnum bankans bréf á föstudag þar sem hann sagði að niðurskurðartímabili Deutsche væri lokið. „Það er ljóst að okkur verður ekki ágengt með því að minnka enn frekar við okkur,“ skrifaði hann í bréfinu.

Tilefnið var að bankanum hafði tekist að ljúka átta milljarða evra hlutafjáraukningu. Á hlutafjáraukningin að nýtast til að borga sektir, fullnægja fjármagnskröfum stjórnvalda og ráðast í fjárfestingar. Að sögn Reuters hefur Deutsche Bank þurft að greiða 15 milljarða evra í sektir frá árinu 2009 vegna afbrota í aðdraganda fjármálakreppunnar.

Meðal þeirra sem tóku þátt í hlutfjáraukningunni voru margir stærstu hluthafar bankans, s.s. hópur katarskra fjárfesta, bandaríski sjóðurinn Blackrock og kínverska samsteypan HNA Group. „Hlutafjáraukningin ætti að þagga niður í þeim röddum sem hafa efast um stöðugleika Deutsche,“ sagði Cryan. ai@mbl.is