Fyrst Hrafnhildur Lúthersdóttir á fullri ferð í keppni í 200 m bringusundi á Íslandsmeistaramótinu.
Fyrst Hrafnhildur Lúthersdóttir á fullri ferð í keppni í 200 m bringusundi á Íslandsmeistaramótinu. — Morgunblaðið/Golli
SUND Jóhann Ingi Hafþórsson johanningi@mbl.is Hrafnhildur Lúthersdóttir sýndi og sannaði í gær að hún er besta sundkona landsins.

SUND

Jóhann Ingi Hafþórsson

johanningi@mbl.is

Hrafnhildur Lúthersdóttir sýndi og sannaði í gær að hún er besta sundkona landsins. Hrafnhildur gerði sér lítið fyrir og varð áttfaldur Íslandsmeistari í 50 metra laug á Íslandsmótinu sem fram fór í Laugardalslaug. Hún hefur alls unnið 50 gullverðlaun á tíu Íslandsmótum í 50 metra laug, sem er stórkostlegur árangur hjá 25 ára konu.

Sunddrottningin bar sigur úr býtum í fjórum einstaklingsgreinum og fjórum boðsundum með sveitum SH, Sundfélags Hafnarfjarðar. Hún er orðin ansi vön því að vinna Íslandsmeistaratitla og sagði hún hreinlega að Íslandsmótið um helgina hefði verið æfing og hún hefði ekki verið upp á sitt besta. „Ég er óhvíld á þessu móti, þetta var meira æfing og ég tek Íslandsmetin seinna,“ sagði hún við Morgunblaðið eftir mótið og verða þetta að teljast ansi mögnuð orð frá áttföldum Íslandsmeistara.

Eygló Ósk Gústafsdóttir keppti einnig á mótinu og vann hún til þriggja gullverðlauna og þriggja silfurverðlauna. Hún vann gull í 200, 100 og 50 metra baksundi en silfurverðlaunin komu í boðsundum með liði sínu, Ægi. Eygló var sátt við sitt en kenndi að sama skapi veikindum um að hún skyldi ekki ná enn betri árangri. „Ég var mikið veik í síðustu viku og ég gat ekki mætt á æfingar þegar ég átti að vera á mikilvægum æfingum. Ég er mjög sátt, þó að ég hafi verið með meiri væntingar fyrir mótið,“ sagði hún eftir að hún lauk síðasta sundi sínu á mótinu.

Aron Örn var aðsópsmikill

Hjá körlunum átti Aron Örn Stefánsson mjög gott mót, hann vann sjö gullverðlaun og ein silfurverðlaun og var hann í sveit SH, ásamt Predrag Milos, Kolbeini Hrafnkelssyni og Ólafi Sigurðssyni, sem setti Íslandsmet í 4x100 metra skriðsundi. SH bætti þá þriggja ára gamalt met, um 0,3 sekúndur, en SH átti metið áður.

Bryndís Rún Hansen stóð svo fyrir sínu, hún vann fern gullverðlaun, tvenn fyrir skriðsund og tvenn fyrir flugsund.

Fram undan eru bæði smáþjóðaleikar og HM hjá besta sundfólki landsins. Hrafnhildur virðist vera í virkilega góðu standi og verður mjög forvitnilegt að fylgjast með henni. Eygló Ósk á svo meira inni og vonandi nær hún að toppa á komandi mótum. Ingibjörg Kristín Jónsdóttir og Bryndís Rún Hansen eru svo einnig komnar með þáttökurétt á heimsmeistaramótinu og eru spennandi tímar fram undan í íslensku sundi.