Í ákæru gegn Thomasi Møller Olsen, sem grunaður er um morðið á Birnu Brjánsdóttur, segir að hann hafi veist með ofbeldi að Birnu í bílaleigubíl af gerðinni Kia Rio að morgni laugardagsins 14.

Í ákæru gegn Thomasi Møller Olsen, sem grunaður er um morðið á Birnu Brjánsdóttur, segir að hann hafi veist með ofbeldi að Birnu í bílaleigubíl af gerðinni Kia Rio að morgni laugardagsins 14. janúar við enda hafnarkantsins í Hafnarfjarðarhöfn, eða á öðrum óþekktum stað.

Samkvæmt ákærunni var Birna slegin ítrekað í andlit og höfuð, tekin kverkataki og hert „kröftuglega að hálsi hennar“. Í framhaldinu hafi Olsen varpað Birnu í sjó eða vatn á óþekktum stað. Hafði ofbeldið þær afleiðingar að Birna hlaut punktablæðingar í augnlokum og innanvert á höfuðleður auk þrýstingsáverka á hálsi, m.a. brot í vinstra efra horn skjaldkirtilsbrjósks. Þá hlaut hún nefbrot og marga höggáverka í andlit og á höfði og drukknaði að lokum.

Olsen er einnig ákærður fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot fyrir að hafa haft í vörslu sinni rúm 23 kg af kannabisefnum sem hann hugðist flytja til Grænlands í ágóðaskyni.

Málið verður þingfest í Héraðsdómi Reykjaness í dag, en farið er fram á að ákærði verði dæmdur til refsingar auk greiðslu sakarkostnaðar og miskabóta til foreldra Birnu. elinm@mbl.is