Árný Albertsdóttir fæddist í Reykjavík 29. apríl 1957. Hún lést á líknardeild Landspítalans 1. apríl 2017.

Foreldrar hennar voru Albert Guðbrandsson verkstjóri, f. í Kambsnesi í Laxárdalshreppi 20.10. 1926, d. 1.9. 1995, og Ingibjörg Þórormsdóttir, f. á Fáskrúðsfirði 24.5. 1928, d. 4.11. 1991. Árný var yngst fjögurra barna þeirra. Systkini hennar eru: 1) Þórný, f. 20.9. 1946, d. 6.10. 1951. 2) Auður Guðbjörg, f. 16.6. 1948, maki Ísleifur Pétursson. 3) Þór Pálmi, f. 30.4. 1952, sambýliskona Astrid Wenthe.

Árný giftist 18.10. 1975 eftirlifandi eiginmanni sínum, Gísla Jónassyni prófasti, f. 26.3. 1952, syni Jónasar Sturlu Gíslasonar vígslubiskups og Arnfríðar Ingu Arnmundsdóttur. Börn þeirra eru: 1) Ingibjörg, f. 18.9. 1976, gift Frode Lauvland. Börn þeirra: a) Markús Elías, f. 30.6. 2009. b) Símon Andreas, f. 5.10. 2011. c) Ester Amalía, f. 1.3. 2014. 2) Friðbjörg, f. 23.9. 1978, gift Ágústi Hólm Haraldssyni. Börn þeirra: a) Sigurgeir Andri, f. 7.11. 1999. b) Þórný Arna, f. 10.8. 2002. c) Gísli Alexander, f. 16.10. 2006. 3) Margrét Inga, f. 3.10. 1983, gift Heiðari Þór Jónssyni. Dætur þeirra: a) Salka María, f. 4.4. 2011. b) Lilja Bríet, f. 6.3. 2016. 4) Jónas Sturla, f. 10.12. 1991. Dætur hans með Hennýju Björk Ásgeirsdóttur: Díana Mist og Karítas Ósk, f. 25.1. 2011. 5) Guðbrandur Aron, f. 23.6. 1995.

Árný ólst upp í foreldrahúsum, lengst af við Gnoðarvog í Reykjavík, gekk í Vogaskóla og síðar Lindargötuskóla. Þá var hún í ballettnámi í Listdansskóla Íslands. Hún var virk í starfi KFUK og starfaði á unglingsárunum í sumarbúðunum í Vindáshlíð og síðar á Aðalskrifstofu KFUM&K og SÍK. Þá var hún um skeið dagmóðir með tengdamóður sinni. Eftir að þau Gísli fluttu til Víkur í Mýrdal árið 1981 var hún tryggingafulltrúi hjá Sýslumanninum í Skaftafellssýslum. Er þau fluttu aftur til Reykjavíkur haustið 1986 starfaði hún sem læknaritari á Borgarspítalanum og síðar sem gjaldkeri hjá Búnaðarbankanum. Þá var hún um skeið barnakórastjórnandi hjá Breiðholtskirkju og síðar einnig skrifstofustjóri. Síðustu starfsárin var hún skjalavörður hjá Samkeppniseftirlitinu.

Eftir að hún flutti aftur til Reykjavíkur stundaði hún söngnám við Söngskólann í Reykjavík og Nýja söngskólann. Þá tók hún nokkra áfanga við FB og lauk námi af skrifstofubraut við MK.

Árný var mjög félagslynd. Hún starfaði m.a. í KFUK og KSS, Kvenfélagi Mýrdalshrepps og Kvenfélagi Breiðholts. Þá söng hún í Kirkjukór Víkurkirkju og Kór Breiðholtskirkju. Hún var einn af stofnendum Kvennakórs Reykjavíkur, söng lengi með kórnum og sömuleiðis um skeið með Vox Femine. Þau hjónin voru mjög virk í Lútherskri hjónahelgi og um skeið í stjórn þeirra samtaka á Íslandi, sem og í stjórn alþjóðasamtakanna. Þau voru leiðbeinendur á fjölda hjónahelga bæði hér á landi, sem og í Danmörku og Noregi. Eftir að Árný veiktist var hún mjög virk í Ljósinu og stundaði þá m.a. ýmiskonar handavinnu enda listræn og alla ævi mikil hannyrðakona.

Útför hennar verður gerð frá Breiðholtskirkju í dag, 10. apríl 2017, klukkan 13.

Það er einkennilegt að hugsa til þess að við höfum átt samleið með Árnýju og Gísla í yfir fjóra áratugi. Karlarnir hófu nám og luku guðfræðiprófi samtímis endur fyrir löngu. Á þeim árum voru samskiptin mikil og náin. Svo skildu leiðir. Við fluttum úr landi. Þau fluttu út á land. Vináttan var þó á sínum stað og þráðurinn var tekinn upp þegar báðar fjölskyldurnar voru komnar í höfuðborgina aftur. Þá var þó ekki mikið tóm til samfunda. Vinskapnum var því fundið fast form: Við hittumst alltaf um jólin og jafnvel á miðju sumri þegar vel áraði! Þetta voru dýrmætar stundir, stóðu lengi og margt var rætt enda áhugamálin svipuð.

Árný setti sannarlega sinn svip á samkomurnar, glettin, gamansöm, skopaðist að sjálfri sér og sagði sögur úr söngnámi, kórastarfi og söngferðum sem hún naut út í æsar. Hún kunni líka listina að halda veislu!

Það varð okkur þungt áfall að heyra af veikindum hennar en það var lærdómsríkt að fylgjast með hvernig þau Gísli tókust á við fréttina. Þau skipulögðu ferðir og fóru í þær margar, ákveðin í að njóta lífsins meðan kraftar entust. Aldrei heyrðum við æðruorð. Það var ljóst að þau gátu leitað stuðnings hvort hjá öðru og hjá Guði sem þau treystu bæði. Það er mannbætandi að verða vitni að slíku.

Það er þó ætíð svo að við leggjum ein upp í okkar hinstu ferð. Það gerði Árný á sinn máta. Það velja nefnilega ekki allir að skrifa opinskátt um líðan sína og gang alvarlegra sjúkdóma á fésbókina. Það gerði Árný. Stundum gat maður hlegið að því hvernig hún lýsti ástandi sínu og sýndi með myndum. Hver gleymir færslunni: „Ef þið sjáið Þ á hlaupum þá gæti það verið ég.“ Svo sagði hún líka að sér litist vel á líknardeildina, að hún léti stjana við sig og að útsýnið væri líka frábært. Þetta var hennar leið til að horfast í augu við erfiða líðan og vissuna um að dagar hennar væru senn taldir.

Maður þurfti því ekki að vera grafalvarlegur og þegjandi í návist hennar. Þver á móti var hægt að ræða líðan hennar og spyrja um hvað eina sem snerti krabbameinið og stóra magann hennar.

Við munum aldrei gleyma heimboði til hennar og Gísla um síðustu áramót. Hún lá í stofusófanum og sagði herramönnunum á heimilinu hvernig þeir ættu að bera sig að í eldhúsinu. Útkoman varð dásamlegur veislumatur og nú vonum við að feðgarnir verði duglegir að notfæra sér tilsögnina.

Við þökkum þessa löngu samleið og fordæmið sem Árný gaf. Kæri Gísli, börn, tengdasynir og barnabörn, við vottum ykkur dýpstu samúð. Blessuð veri minning Árnýjar.

Ragnheiður og Hjalti.

„Senn kemur vor“, var fyrsta lagið sem við fluttum opinberlega með Kvennakór Reykjavíkur eftir að hann var stofnaður árið 1993. Í Kvennakórnum kynntumst við Árnýju og hefur sú vinátta haldist síðan, líka eftir að sumar okkar hættu í kórnum. Eftir æfingabúðir í Munaðarnesi, þar sem við lentum saman í húsi, fórum við að hittast af og til og syngja saman í litlum hópi, fá okkur kaffi og spjalla. Árný gaf tóninn og leiddi sönginn, en við vorum bara sex, stundum sjö, og sungum í fjórum röddum. Árný átti alltaf einhver ráð í pokahorninu, t.d. ef við áttum til að „síga“, þá sagði hún okkur bara að lyfta fótunum frá gólfinu, þar sem við sátum og þá héldum við tónhæðinni! Við hittumst nokkuð oft og sungum saman og við nokkrar athafnir fyrir ættingja og vini, m.a. í einu brúðkaupi. Árný hafði fallega rödd, hún var góður og kátur félagi og alltaf til í sprell. Hún var yndisleg vinkona og við munum alltaf minnast hennar með mikilli hlýju. Nú kemur þetta fallega lag „Senn kemur vor“ upp í hugann og það minnir okkur á góðar stundir í Kvennakórnum og í litla hópnum okkar með Árnýju.

Senn kemur vor, sólin vermir spor.

Rísa af rökkurblund runnar og blóm.

Fjallalind fríð laus við frost og vetr arhríð,

létt og blítt, í lautum hjalar hún við lágan stein.

(Sigríður I. Þorgeirsdóttir.)

Við vottum fjölskyldu Árnýjar innilega samúð.

Blessuð sé minning hennar.

Hrönn Hjaltadóttir, Kristín Árnadóttir, Margrét Þormar, Rannveig Pálsdótttir, Sigurlína Gunnarsdóttir.

Árný Albertsdóttir starfaði í allmörg ár í Samkeppniseftirlitinu, en þar hóf hún störf síðsumars 2007. Við sem vorum samferða henni þar söknum góðrar samstarfskonu sem alltaf var reiðubúin að greiða götu þeirra sem á því þurftu að halda og sýndi umhyggju og hlýju þegar eitthvað bjátaði á hjá starfsfélögum. Þá tók hún drjúgan þátt í samkomum starfsmanna utan vinnustaðarins og fengum við m.a. að njóta þess í söng hennar og leik.

Hjálpsemi var Árnýju í blóð borin, hvort sem var í vinnu eða einkalífi. Samhliða því að hún rækti starf sitt af trúmennsku tók hún virkan þátt í safnaðarstarfi á vettvangi þjóðkirkjunnar. Okkur sem með henni störfuðum var ekki síður ljóst hversu mikið hún unni fjölskyldu sinni og bar hag hennar fyrir brjósti.

Gamlir samstarfsfélagar sakna vinar í stað sem þrátt fyrir langvinn og erfið veikindi hélt tengslin við samstarfsmenn fram undir það síðasta. Fyrir hönd okkar sem störfuðum með Árnýju í Samkeppniseftirlitinu færi ég Gísla og fjölskyldu þeirra hjóna hugheilar samúðarkveðjur á erfiðum tímum.

Páll Gunnar Pálsson.

Elsku Árný hefur verið órjúfanlegur hluti af Lútherskri hjónahelgi í mörg ár þar sem þau hjónin hafa gefið ómælt af sér. Hjónahelgarnar voru henni mikið hjartans mál og þau hjónin hafa starfað bæði hér heima og á alþjóðavettvangi auk þess að hjálpa til á Norðurlöndum þegar á þurfti að halda.

Með söknuði minnumst við margra góðra stunda þar sem Árný gat leikið á als oddi með glensi og hlátri eða fallegum söng. Hún var ætíð umvefjandi og styrkjandi og fann gjarna á sér ef einhver þurfti á extra faðmlagi að halda. Útgeislun hennar var sterk og hlý. En Árný var fyrst og fremst umfaðmandi móðir og eiginkona sem gekk í gegnum lífið með eiginmanni sínum þannig að þau voru sem eitt. Við upplifðum hana sem kjarkaða konu, ekki síst frammi fyrir gífurlega erfiðum veikindum. Æðruleysi hennar í því ferli hefur kennt okkur svo ótal margt og það hafði sterk áhrif á okkur hvernig hún hélt alltaf í vonina og trúna sem sterkasta aflið.

Árný ákvað að lifa einn dag í einu. Hún fann mátt bænarinnar virka og sagði sjálf: „Ef ég finn til er nóg fyrir mig að biðja þá hverfur verkurinn.“ Og eitt er víst að margir báðu fyrir henni líka. Hún þakkaði því að lengi framan af var hún verkjalítil eða verkjalaus í baráttu sinni við mjög erfiðan sjúkdóm. Árný fær örugglega extra stóra englavængi til að geta umvafið þau öll, elsku Gísla, börnin þeirra, tengdabörnin og barnabörnin verndarvængjunum sínum. Því þannig var Árný fjölskyldu sinni í lifandi lífi. Að hugsa sér að eiga slíkan verndarengil. En englakórnum hefur líka bæst góður liðsauki og sálmarnir verða enn fallegar raddaðir með hjálp Árnýjar.

Í okkar hópi bíðum við ósjálfrátt eftir þessum tónum þegar við syngjum saman og vöknar um augun þegar ekkert heyrist. Árný gat ekki sungið síðasta árið en var dugleg að mæta og vera með þrátt fyrir veikindin. Hennar verður sárt saknað í okkar hópi. Við þökkum af alhug allar góðu stundirnar sem við höfum átt saman í kærleiksríkum hópi og biðjum algóðan Guð að blessa Gísla og börnin þeirra öll, bera þau á örmum sér í gegnum erfiðan tíma.

Fyrir hönd samstarfshóps Hjónahelgar á Íslandi,

Kristín og Ásbjörn, Sigríður og Eyjólfur.