Innflutningur hættulegur? Vilhjálmur Svansson, dýralæknir og veirufræðingur á rannsóknarstöðinni á Keldum, Ögmundur Jónasson fundarstjóri og Karl G. Kristinsson, prófessor og yfirlæknir á sýklafræðideild Landspítalans.
Innflutningur hættulegur? Vilhjálmur Svansson, dýralæknir og veirufræðingur á rannsóknarstöðinni á Keldum, Ögmundur Jónasson fundarstjóri og Karl G. Kristinsson, prófessor og yfirlæknir á sýklafræðideild Landspítalans. — Morgunblaðið/Skapti Hallgrímsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
MATVÆLI Skapti Hallgrímsson skapti@mbl.is Stafar lýðheilsu Íslendinga hætta af innflutningi á ferskum matvælum? Svo spurði Karl G. Kristinsson, prófessor og yfirlæknir á sýklafræðideild Landspítalans, á fundi á Akureyri í gær og ekki stóð á svari: Já!

MATVÆLI

Skapti Hallgrímsson

skapti@mbl.is

Stafar lýðheilsu Íslendinga hætta af innflutningi á ferskum matvælum? Svo spurði Karl G. Kristinsson, prófessor og yfirlæknir á sýklafræðideild Landspítalans, á fundi á Akureyri í gær og ekki stóð á svari: Já! Hann kveðst sannfærður um að svo sé. „Mikið hefur verið talað um hættu fyrir búfé en minna talað um lýðheilsu,“ sagði Karl.

Gott ástand á Íslandi

Vilhjálmur Svansson, dýralæknir og veirufræðingur á Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði á Keldum, og Karl G. höfðu framsögu á opnum fundum á Akureyri í gær og Húsavík á laugardag. Ögmundur Jónasson, fv. ráðherra, var fundarstjóri. Áður höfðu þremenningarnir haldið sambærilegan fund í Reykjavík og hyggjast halda áfram ferð sinni um landið og ræða um þessi mál. Vekja þurfi almenning til umhugsunar um hve gríðarlega mikilvægt mál sé að ræða.

Vilhjálmur og Karl ræddu vítt og breitt um innflutning á ferskum matvælum, bæði kjöti og öðru; um sýkingarhættu, hvort tveggja varðandi búfénað og menn, sjúkdóma, sýklalyfjanotkun í landbúnaði og stöðu mála víða um lönd.

Fram kom í máli þeirra að staðan á Íslandi væri mjög góð á alla lund.

Vilhjálmur nefndi að smitsjúkdómsstaða íslenskra búfjárstofna væri í mörgu tilliti einstök á heimsvísu. Hérlendis fyndust ekki mörg þeirra smitefna sem væru landlæg í nágrannalöndunum, og höfuðástæða þess væri landfræðileg einangrun Íslands. Sú staða gerði búfé á Íslandi viðkvæmt fyrir faröldrum nýrra smitefna. „Núverandi sjúkdómsstaða er auðlegð sem okkur ber að verja,“ sagði Vilhjálmur.

Núgildandi reglur um innflutning dýra og dýraafurða væru til þess fallnar að draga úr líkum á því að ný smitefni bærust til landsins, í menn og skepnur. „Ef við neyðumst til að leggja af núgildandi reglur aukast líkurnar á því að ný smitefni nái fótfestu og það mun hafa þýðingu fyrir heilsu manna og dýra hérlendis,“ sagði Vilhjálmur Svansson á fundinum í gær.

Varðandi mannskepnuna sagði Vilhjálmur tíðni matarsýkinga lága hér á landi og innlagnir færri á sjúkrahúsum en í öðrum löndum.

Þar sem Ísland væri eyja án landamæra að öðrum ríkjum ætti að vera auðvelt að verjast nýjum smitefnum. Nútímalifnaðarhættir hefðu hins vegar veikt mikið þær varnir sem fælust í legu landsins enda smitleiðir til landsins greiðari og fjölbreyttari en áður.

Bakteríur gætu náð fótfestu

Vilhjálmur sagði slæma reynslu af innflutningi dýra og dýraafurða í gegnum tíðina og nefndi nokkur slæm dæmi.

Karl G. Kristinsson sagði Ísland hafa algera sérstöðu varðandi súnur (sem eru smitefni sem geta borist milli manna og dýra) og sýklalyfjaónæmi. Aukinn innflutningur myndi fjölga sýkingum í mönnum og auka líkurnar á því að nær alónæmar bakteríur næðu hér fótfestu. Raunveruleg og vaxandi ógn væri vegna baktería sem væru ónæmar fyrir öllum eða nánast öllum sýklalyfjum. Því væri mikilvægt að fylgjast vel með innflutningi á matvælum og dýrafóðri og leita kerfisbundið að sýklalyfjaónæmi í þeim.

Karl sagði að á Íslandi væri lægsta nýgengi af kampýlóbaktersýkingum af öllum löndum Evrópu, þótt talin væru með þau tilfelli þar sem fólk smitaðist utan Íslands. Hvað salmonellu varðar væri sambærileg tala 50% lægri en annars staðar í Evrópu, einnig þótt talin væru með tilfelli þar sem fólk smitaðist erlendis. Þá væri á Íslandi lægsta nýgengi E. coli í Evrópu og bakterían hefði ekki fundist í íslensku búfé.

Karl segir áhrif innflutnings á fersku kjöti geta orðið að bæði kampýlóbakter- og salmonellusýkingar margfaldist.

Strangar reglur hafa lengi verið hérlendis varðandi innflutning á hráum dýraafurðum, en árið 2004 var slakað á innflutningsbanni á hráum búfjárafurðum og innflutningur leyfður að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.